Ábyrgð er hægt að meta til fjár

26/06/2019

Rannsóknir sýna að fyrirtæki sem taka tillit til umhverfislegra þátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS) í rekstri sínum draga úr áhættu og eru þar með líklegri til að ná árangri til lengri tíma litið. Slík fyrirtæki ættu því að vera verðmætari í augum fjárfesta. Vandinn er sá að til skamms tíma hefur verið erfitt að meta þessa UFS-þætti til fjár. Það er þó óðum að breytast og í þessari grein er fjallað um helstu aðferðir sem þróaðar hafa verið við mat á UFS-þáttum við greiningu á fjárfestingarkostum.

Neikvæð skimun algengust

Samkvæmt nýjustu rannsókn Eurosif, samtaka um ábyrgar fjárfestingar í Evrópu, er neikvæð skimun enn algengasta aðferðin sem fjárfestar beita. Neikvæð skimun gengur út á að útiloka lánveitingar til eða fjárfestingar í fyrirtækjum sem stunda starfsemi sem metin er óæskileg, s.s. áfengis- og tóbaksframleiðslu, veðmálastarfsemi, vopnaframleiðslu og klámiðnað. Fjárfestar útfæra neikvæða skimun með ýmsum hætti. Mismunandi er hversu langt horft er eftir virðiskeðjunni, allt frá því að útiloka eingöngu fyrirtæki sem stundar þessa starfsemi allt til þess að útloka tengda aðila svo sem móður- og dótturfélög, eða jafnvel birgja og dreifingaraðila. Norski olíusjóðurinn beitir neikvæðri skimun og horfir langt eftir virðiskeðjunni og birtir jafnframt lista á vef sínum yfir þau fyrirtæki sem hann hefur útilokað.

Vinsældir jákvæðrar skimunar aukast

Jákvæð skimun er aðferð sem hægt er að beita einni og sér eða með öðrum aðferðum og þá oftast með virku eignarhaldi eða útilokun. Ef fyrirtæki í eignasafni fjárfesta uppfylla ekki UFS-þættina geta fjárfestar átt samtal við fyrirtækið. Í kjölfarið er ákveðið hvaða aðgerða er rétt að grípa til og hvort t.d. nauðsynlegt sé að selja hluti í viðkomandi fyrirtæki . Vinsældir þessarar aðferðar hafa aukist mikið á síðustu árum sérstaklega á Norðurlöndum en henni er einnig mikið beitt í Frakklandi og Hollandi. Algengast er að viðmið UN Global Compact um jákvæða skimun sé notað við greiningu á fyrirtækjum.

Sjálfbærar þemafjárfestingar

Sjálfbær þemafjárfesting sem byggir á því að horfa sérstaklega á ákveðnar tegundir fjárfestinga sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi t.d. varðandi loftlagsbreytingar, fæðu, vatn, endurnýjanlega og hreina orkugjafa og landbúnað. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna falla vel að þessari aðferðafræði þar sem áhersla í fjárfestingum er á tiltekin málefni. Mikil aukning hefur verið í fjárfestingum sem er ætlað að draga úr áhrifum loftslagbreytinga og bæta aðgengi að vatni.

Beita áhrifum með virku eignarhaldi

Þegar búið er að fjárfesta í fyrirtæki hafa fjárfestar þann möguleika að hafa skoðun og áhrif á stefnu fyrirtækja sem varðar UFS-þætti. Með því geta fjárfestar haft meiri áhrif á rekstur fyrirtækisins heldur en með því að selja einfaldlega hluti sína sem leiðir til þess að fjárfestirinn hefur takmarkað vald til að beina fyrirtækinu á rétta braut. Lífeyrissjóðir eiga nú 40 prósent af skráðum félögum í íslensku kauphöllinni. Það er ljóst að lífeyrissjóðir geta haft verulega áhrif með virku eignarhaldi.

UFS fléttað inn í virðismatið frá upphafi

Ef UFS-þættir eru frá upphafi teknir með í reikninginn við greiningu fyrirtækja geta þeir haft bein áhrif á verðmöt. Töluverð þróun hefur orðið við framsetningu á mælikvörðum UFS-þátta og má í því sambandi benda á viðmið Nasdaq-kauphallarinnar og Heimsmarkmið SÞ. Til skamms tíma hafa fjárhagslegar greiningar og mat á UFS-þáttum verið aðskilið í hefðbundnum greiningum og aðeins verið hugað að UFS-þáttum eftir að ákvörðun um fjárfestingu hefur verið tekin. Þetta er þó að breytast og UFS-þættir eru í auknum mæli taldir hafa fjárhagslega þýðingu og þeim fléttað inn í greiningu frá upphafi.

Munu sitja eftir ef ekkert er gert

Skýrar vísbendingar eru um að ungt fólk horfi í mun meiri mæli til UFS-þátta og vill hafa áhrif með fjárfestingum. Í rannsókn Morgan Stanley um fjárfestingar og sjálfbærni frá árinu 2017 kom t.a.m. fram að mikill meirihluti fjárfesta af aldamótakynslóðinni telur að fjárfesting þeirra geti haft áhrif á loftslagsbreytingar af mannavöldum. Ein af niðurstöðum þessarar rannsóknar var að fyrirtæki verða að líta til sjálfbærni í starfsemi sinni til að lenda ekki utan fjárfestamengi aldamótakynslóðarinnar.

Greinin um aðferðarfræði ábyrgra fjárfestinga

Samantekt yfir aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga á vef IcelandSIF