Ábyrgar fjárfestingar - verklag

Ef litið er til erlendra fjárfestingasjóða þá samanstendur eignasafn þeirra af hundruðum eigna.  Það gefur augljósa leið að sjóðirnir geta ekki greint öll fyrirtæki út frá samfélagssjónarmiðum eða átt við þau samtal.  Því er nauðsynlegt að koma á fót verklagi sem á auðveldan máta greinir áhættumeiri fjárfestingar frá öðrum og leggja áhersluna á þau fyrirtæki sem virkilega skipta máli.

Verklag

Flestir skandinavískir fjárfestar útvista greiningu eignasafna til þjónustuaðila.  Flestir stærri greinendur, auk sérhæfðra ESG greiningarfyrirtækja, eru með sérstakar ESG greiningardeildir sem bjóða uppá almennar og sértækar greiningar. 

Almennu greiningarnar byggja á áhættumati á fyrirtækjum eftir atvinnugreinum og hvar fyrirtækin eru staðsett, t.d. hvort spilling er landlæg og sambærilegt.  Sértækar greiningar eru síðan skimun eignasafna einstakra  fjárfesta og í vissum tilfellum samtal við fyrirtæki fyrir hönd þeirra sem  og „proxy voting“, allt eftir nánara samkomulagi. Fjárfestar gera sjaldan eigin greiningar nema um sé að ræða fyrirtæki sem eru verulega stór hluti af eignasafni viðkomandi.

Á þennan máta ná fjárfestar að áhættumeta eignasafnið út með hliðsjón að ESG sjónarmiðum og forgangsraða hvar eigi að leggja mesta áherslu.

Eignarflokkar

Áherslur fjárfesta á einstaka eignarflokka eru einnig mismunandi og það má segja að mun flóknara er að greina ESG áhættu í verðbréfasjóðum samanborið við fyrirtæki.  Allir fjárfestar sem á annað borð skoða ESG þætti láta meta skráð fyrirtæki fyrir sig.  Einnig er mjög algengt að meta ESG áhættu skuldabréfaútgefenda og fjárfestingaverkefna eins og innviðafjárfestinga og fasteignaverkefna.  

Það virðist einnig fara vaxandi að fjárfestar láta gera ESG mat á frumtaksfyrirtækjum. ESG matið er þá hluti af heildar áreiðanleikakönnun á fyrirtækinu.  Hugmyndafræðin á bak við það er að fyrirtæki sem hafa hugað að ESG þáttum í starfsemi sinni séu betri fjárfestingakostur þegar þau fari á markið.  

Upplýsingar

ESG greinendur nota fyrst og fremst opinberar upplýsingar um mat á fyrirtækjum eins og gert er með verðmat að öðru leiti.  Á sambærilegan máta og ársreikningur og árshlutauppgjör skipta mestu í fjárhagslegu mati skipta samfélagsskýrslur miklu máli við mat á ESG þáttum. 

Það er komin tiltölulega lítil reynsla á gerð samfélagsskýrslna á Íslandi en fer þó vaxandi.  Í samræmi við gerð ársreikninga hefur megináhersla hingað til verið að taka fram tölulegar upplýsingar í samfélagsskýrslum.  Tölulegar upplýsingar eru vissulega mikilvægar en það er enn mikilvægara fyrir fjárfesta að skilja hvernig er unnið með ESG þætti í starfseminni.   Þá er verið að horfa á eftirfarandi atriði:

  • Hver er stefnan?
  • Hvernig er ESG þáttum stýrt (stjórnhættir)
  • Með hvaða ESG þætti er unnið og hve viðeigandi eru þeir fyrir fyrirtækið?
  • Hvernig fór áhættugreining á ESG þáttum fram?

Niðurstaðan úr þessu verkferli eru síðan tölfræðilegir mælikvarðar.  

Þessi nálgun endurspeglast í flestum alþjóðlegum stöðlum um gerð samfélagsskýrslna.  Nægir þar að nefna Global Reporting Initiative (GRI), Sustainable Accounting Standard Board (SASB) eða World Business Council for Sustainable Developemnet (WBCSD) – Task Force for Climate Related Financial Disclosure (TCFD). 

Slæmar samfélagsskýrslur þar sem að ofangreint vantar segja góðum ESG greinendum oft meira en mörg orð.  Skýrslur sem lýsa sorpflokkun og styrkveitingum með myndum af hamingjusömum börnum á sólblómaakri, segja góðum greinendum ýmislegt, en líklega ekki það sem fyrirtækin voru að vonast eftir. 

Málaflokkar

Þeir málaflokkar sem fyrirtæki eiga að leggja áherslu á eru vissulega mismunandi eftir atvinnugreinum og landsvæðum.  Það eru þó málaflokkar sem eru ofarlegar í hugum ESG greinenda en aðrir.  

Loftslagsbreytingar hafa verið lengi í umræðunni en eftir Parísarfundinn hefur vægi þeirra margfaldast.  Það er ekki til sú atvinnugrein sem getur leyft sér að undanskilja loftslagsbreytingar í sínu starfi

Jafnrétti kom nokkuð sterkt inn í umræðuna fyrir um tveimur árum og það er erfitt að sjá að sú áhersla minnki eitthvað á næstunni.  Nægir þar að nefna #metoo hreyfinguna

Langtímahugsun hefur verið í jaðri umræðunnar í nokkurn tíma en MSCI telur að áherslur á ársfjórðungsuppgjör minnki.  Lífeyrissjóðir muni í ríkari mæli horfa á aldurssamsetningu sjóðsfélaga og hvenær þeir byrja að taka út lífeyri frekar en næsta ársfjórðung.

Áherslur munu færast frá huglægri áhættu í hlutlæga, það er að horfa meira á raunverulegar breytingar í náttúrulegu (physical) umhverfi fyrirtækja frekar en í pólitísku umhverfi.  Það má segja að kjör Trump í Bandaríkjunum hafi átt veruleg áhrif í þessa átt.  Náttúrulegar breytingar munu eiga sér stað og hafa varanleg áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja alveg óháð hvað pólitíkusar segja.   

Það er einnig tilhneiging að meta hvernig fyrirtæki eru að vinna með heimsmarkmiðin, eitt eða fleiri.  Heimsmarkmiðin eru hins vegar það ný af nálinni að á þetta er ekki enn komin almennileg reynsla.


Um höfundinn

Finnur Sveinsson sérfræðingur í samfélagsábyrgð:

Viðskiptafræðingur frá HÍ 1991  með master í umhverfisfræði frá háskólanum í Gautaborg (1998)

Vann í markaðsdeild Íslandsbanka 1991 til 1995.  Á árunum 1995 til 2007 bjó Finnur í Gautaborg og vann að fjölmörgum verkefnum á sviði umhverfis- og samfélagsábyrgðar hjá sænskum fyrirtækjum. Þegar hann flutti aftur til Íslands árið 2007 hafði hann þegar unnið í rúmt ár að verkefnum hjá Alcoa Fjarðaál tengdum innkaupum, innkaupum og samfélagsábyrgð og hélt því áfram til árloka 2010.  Í upphafi árs 2011 hóf Finnur störf hjá Landsbankanum sem yfirmaður samfélagsábyrgðar hjá bankanum.  Finnur yfirgaf bankann í lok árs 2015 og hefur síðan þá unnið sem ráðgjafi samtímis sem hann byggði fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi yfir sig og fjölskyldu sína.