Ábyrgar fjárfestingar eru skynsamar fjárfestingar

Bylting hefur orðið í alþjóðlegu fjárfestingarumhverfi þau ár sem hér voru fjármagnshöft. Gamaldags viðhorf þar sem einblínt er á skjótan gróða við val á fjárfestingum án þess að taka mið af langtímaafleiðingum á náttúru og samfélag hefur vikið fyrir framsýnni viðhorfum þar sem aðilar á fjármagnsmarkaði axla ábyrð á áhrifum sínum í víðari skilningi og til lengri tíma. Það er ekki bara skynsamlegt, það er fjárhagslega nauðsynlegt að tileinka sér aðferðir um ábyrgar fjárfestingar vilji fólk starfa við fjárfestingar í náinni framtíð. 


Ábyrgar fjárfestingar felast í að taka mið af umhverfis- og samfélagsþáttum, 

auk stjórnarhátta og siðferðis þegar fjárfestingaákvarðanir eru teknar. 

Céline Louche, 2015]

Í júlí á síðasta ári sat ég fund 40 alþjóðlegra sérfræðinga í Frankfurt í boði Sjálfbærniráðs þýsku ríkisstjórnarinnar. Til fundarins var kallað af nauðsyn. Þýska ríkisstjórnin vildi kanna hvernig flýta mætti þróun á áreiðanlegum ófjárhagslegum upplýsingum um rekstur fyrirtækja. Umræðuefnið var ekki hvort fjárfestar ættu að sýna ábyrgð heldur hvernig hægt er að samræma ófjárhagslegar upplýsingar um evrópsk fyrirtæki svo fjárfestar gætu tekið betri ákvarðanir hraðar. Rætt var um síauknar kröfur úr ólíkum áttum um ófjárhagslegar upplýsingar um rekstur fyrirtækja, þar má nefna Evróputilskipunina um ófjárhagslegar upplýsingar, Parísarsáttmálann og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í samantekt fundarins sagði Roelfien Kuijpers, framkvæmdastjóri hjá Deutsche Asset Management, fjárfestingahluta Deutsche Bank sem stýrir yfir 700 milljörðum Evra, að þeir fjárfestar  sem taka ekki  upp ábyrga fjárfestingastefnu innan fimm ára verði einfaldlega ekki starfandi við fjárfestingar lengur.

Til að íslenskur fjármagnsmarkaður verði samkeppnishæfur þurfa aðilar markaðarins að taka upp ábyrgar fjárfestingaaðferðir hratt og örugglega. Fjárfestar þurfa að breyta starfsháttum sínum við val á fjárfestingum, fyrirtæki í leit að fjármagni verða að veita upplýsingar um umhverfis- og samfélagsáhrif sín og yfirvöld þurfa að hvetja til ábyrgra fjárfestinga með bættum leikreglum og hvötum. Yfirvöld þurfa einnig að gera skýrar kröfur um samfélagsábyrgð til þeirra erlendu fjárfesta sem hingað munu koma með fjármagn í framtíðinni. Við þurfum fjárfesta sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið en ekki fjármagnssóða í leit að skjótum gróða sem skilja eftir sviðna jörð. 

Nú þegar hefur verið sýnt fram á (pdf) að fyrirtæki sem leggja áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, endurnýta sorp, jafna möguleika kynjanna, setja fram trúverðugar upplýsingar um vörur sínar, gæta réttinda starfsfólks, styðja við nærsamfélag sitt og sýna samfélagsábyrgð með öðrum hætti standa sig betur fjárhagslega en fyrirtæki sem ekki stuðla að sjálfbærni og sýna ábyrgð. Það er orðin sjálfsögð krafa og óumdeilt að hægt er að skila fjárhagslegum hagnaði í fyrirtækjarekstri á sama tíma og skapað er langtímavirði fyrir samfélagið. 

Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð fagnar stofnun IcelandSIF, samtaka um ábyrgar fjáfestingar. Framtíðarsýn Festu er að íslensk fyrirtæki verði þekkt fyrir samfélagsábyrgð sína, ábyrga umgengni um náttúruna og þann ávinning sem þau skapa fyrir samfélagið. Fjárfestar hafa mikil áhrif á samfélagsábyrgð fyrirtækja og því skipta ábyrgar fjárfestingar mjög miklu máli fyrir samfélagsábyrgð á Íslandi. Fyrir þjóð sem reiðir sig eins mikið á náttúruauðlindir eins og við Íslendingar, fiskinn í sjónum, endurnýtanlega orku og náttúruperlur fyrir ferðamenn, skiptir sköpum að fjárfestingar sem tengjast þessum auðlindum stuðli að sjálfbærri nýtingu þeirra. 

Um höfundinn

Ketill Berg Magnússon er framkvæmdastjóri Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð og stundakennari í viðskiptasiðfræði og samfélagsábyrgð við Háskólann í Reykjavík. Ketill hefur, frá því hann lauk meistaranámi í heimspeki með áherslu á viðskiptasiðfræði, kennt viðskiptasiðfræði og samfélagsábyrgð. Ketill lauk MBA námi frá ESADE háskólanum í Barcelona árið 2008 og lagði þar m.a. áherslu á stefnumótun á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar. Ketill hefur starfað við stjórnendaráðgjöf og vann hjá Símanum og Skiptum frá 2001-2012 þar sem hann var m.a. framkvæmdastjóri mannauðs. Ketill er formaður stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans á Íslandi.