ESG leiðbeiningar Kauphallarinnar

Í mars síðastliðnum birtu kauphallir Nasdaq á Norðurlöndum sameiginlegar leiðbeiningar (pdf) fyrir fyrirtæki um birtingu upplýsinga um samfélagsábyrgð; eða umhverfismál, samfélagslega þætti og stjórnarhætti (e. ESG – Environmental, Social, Governance). Leiðbeiningunum er ætlað að aðstoða fyrirtæki að birta slíkar upplýsingar á skýran og aðgengilegan hátt fyrir fjárfesta og aðra hagsmunaaðila.

Kauphöllin gerir ekki kröfu um að fyrirtæki fylgi leiðbeiningunum, heldur er það alfarið undir fyrirtækjunum sjálfum komið. Leiðbeiningunum er fyrst og fremst ætlað að hjálpa fyrirtækjum að koma til móts við auknar kröfur fjárfesta og samfélagsins um birtingu upplýsinga er varða samfélagsábyrgð. Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning á þessu sviði, ekki síst meðal alþjóðlegra stofnanafjárfesta. Það sem hefur ráðið nokkru um þá þróun er aukin krafa almennings um að litið sé til áhrifa ráðstöfunar sparifjár hans á umhverfi og samfélag. Í könnun Ernst & Young meðal fjárfesta á árinu 2017 töldu yfir 90% fjárfestanna að eftirspurn viðskiptavina (þ.e. sparifjáreigenda) eftir betri upplýsingum um samfélagsábyrgð skipti þá miklu máli í störfum sínum sem fjárfestar. Annar áhrifavaldur er sannfæring fjárfesta um að þessar upplýsingar veiti mikilvæga innsýn í rekstur fyrirtækja. Í fyrrnefndri könnun E&Y álitu 92% fjárfesta að svo væri. Jafnframt er ljóst að mörgum fjárfestum finnst upplýsingagjöf fyrirtækja um samfélagsábyrgð ábótavant.

Breytingar á innlendu regluverki þrýsta frekar á um ESG upplýsingagjöf. Með breytingum á lögum um ársreikninga á árinu 2016 var kveðið á um skyldu stórra félaga og eininga tengdum almannahagsmunum til birtingar ófjárhagslegra upplýsinga (sbr. 66. gr. d í lögum um ársreikninga). Með breytingum á lífeyrissjóðalögum þetta sama ár var lífeyrissjóðunum gert skylt að setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.

Það er því deginum ljósara að skipuleg ESG upplýsingagjöf er mörgum fyrirtækjum bráðnauðsynleg og sé vel að henni staðið getur hún veitt þeim samkeppnisforskot. Það þarf því ekki að undra að ESG leiðbeiningum Kauphallarinnar hefur verið vel tekið, enda geta þær bæði auðveldað fyrirtækjum fylgni við lög og hjálpað til við að gera þau að álitlegri fjárfestingarkosti. Leiðbeiningarnar tilgreina 33 mælikvarða sem fjárfestar líta gjarnan til, 10 á sviði umhverfismála, 12 á sviði samfélagsmála og 11 á sviði stjórnarhátta. Við val á mælikvörðum var m.a. litið til alþjóðlegra viðmiða og staðla, einkum GRI (Global Reporting Initiative). Leiðbeiningarnar skýra út hvað hver mælikvarði mælir, hvernig hann er reiknaður og af hverju hann skiptir máli. Vitanlega verður þó hvert og eitt fyrirtæki að miða upplýsingagjöf sína við þá þætti sem skipta rekstur þess máli og þeir geta verið frábrugðnir þeim sem nefndir eru í leiðbeiningunum.

Í tengslum við útgáfu leiðbeininganna buðu Nasdaq kauphallirnar á Norðurlöndum fyrirtækjum með skráð verðbréf að taka þátt í eins árs tilraunaverkefni og var verkefninu hrundið af stað síðastliðið haust. Í því falast Nasdaq eftir endurgjöf frá fyrirtækjum sem notast við leiðbeiningarnar og mun taka saman skýrslu og birta niðurstöður verkefnisins. Í þessum tilgangi verða haldnar nokkrar vinnustofur með þátttöku þeirra fyrirtækja sem þekktust boðið. Hér á Íslandi taka sex fyrirtæki þátt í verkefninu, sem telst góð þátttaka, en fleiri fyrirtæki hafa sýnt leiðbeiningunum áhuga og verið í samskiptum við Kauphöllina í tengslum við þær.

Íslensk fyrirtæki virðast því sjá tækifæri í aukinni ESG upplýsingagjöf. Fyrir okkur í Kauphöllinni er verkefnið sérstaklega gefandi. Fellur það vel að þeirri sannfæringu okkar að skilvirkur verðbréfamarkaður geti skilað þjóðfélaginu ávinningi í bættum lífskjörum. Gagnsæið er lykilatriði í þessu samhengi. Aukin upplýsingagjöf á sviði samfélagsábyrgðar er því til þess fallin að styðja við þetta mikilvæga þjóðfélagslega hlutverk verðbréfamarkaðar.

Mynd: ESG mælikvarðarnir sem tilgreindir eru í leiðbeiningum Nasdaq Iceland

ESG mælikvarðar

Um höfundinn

Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. B.A. í hagfræði frá Macalester College, St. Paul Minnesota (1989) og doktorspróf frá Yale háskóla, New Haven, Connecticut (1998). Vann sem sjálfstæður ráðgjafi 1998-1999. Hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun 1999-2002. Vann við hin fjölbreytilegustu verkefni þ.m.t. gerð þjóðhagslíkana. Aðstoðarforstjóri Kauphallarinnar 2002-2011 og forstjóri frá árinu 2011.