Samþykktir

1.gr. - Nafn, heimili og varnarþing

Félagið heitir IcelandSIF - Íslenskur umræðuvettvangur fyrir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Félagið er almennt félag.

Heimili félagsins og varnarþing er í Kópavogi.

2. gr. - Tilgangur

Félagið er sjálfstæður vettvangur fyrir umræður og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Tilgangurinn er að

 • efla þekkingu félagsaðila á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga, og
 • auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Félagið hefur ekki tiltekna afstöðu til ábyrgra og sjálfbærra fjárfestinga og skal ekki taka opinbera afstöðu til einstakra málefna. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir almenna upplýsingagjöf á vegum félagsins um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

3. gr. - Félagsaðilar

Félagsaðila eru tvenns konar, aðildarfélög og aukaaðilar.

Aðildarfélög geta verið starfsleyfisskyld fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingarfélög sem fjárfesta fyrir eigin reikning eða í umboði þriðja aðila með starfsemi á Íslandi og styðja tilgang félagsins.

Aukaaðilar geta verið aðrir lögaðilar, samtök og opinberir aðilar með starfsemi á Íslandi sem styðja tilgang félagsins.

Stjórn félagsins ákveður hvort viðkomandi uppfylli skilyrði til að gerast aðili að félaginu.

Stjórn er heimilt að vísa félagsaðilum úr félaginu þ. á m. hafi þeir ekki greitt félagsgjöld, unnið gegn markmiðum félagsins eða augljóslega skaðað hagsmuni félagsins. Áður en félagsaðila er vísað úr félaginu skal hann upplýstur skriflega um ástæður þess og fá að minnsta kosti fjórtán daga til andmæla. Eftir að ákvörðun hefur verið tekin skal stjórn upplýsa lögaðilanum um það innan fjórtán daga.

Félagsaðilar greiða árgjald til félagsins. Félagsgjaldið getur verið mismunandi eftir flokkum félagsaðila. Aðalfundur ákveður gjaldið eftir tillögu stjórnar þar um.

Sækja ber um aðild að félaginu. Í umsókninni skal koma fram yfirlýsing um að umsækjandi styðji tilgang félagsins. Viðkomandi skuldbindur sig til að greiða árgjald eins og það er ákvarðað hverju sinni.

Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt stjórn félagsins. Þegar greidd árgjöld endurgreiðast ekki við úrsögn úr félaginu. Aðildarfélag eða aukaaðili sem ekki hefur greitt árgjald innan þriggja manaða frá gjalddaga telst hafa sagt upp félagsaðild.

4. gr. - Reikningsár

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

5. gr. - Aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund félagsins skal halda fyrir 1. júní ár hvert. Boða skal aðalfund með minnst fjögurra vikna fyrirvara með tölvupósti til félagsmanna. Aðalfundur er ályktunarbær sé rétt til hans boðað. Einungis fulltrúar félagsaðila geta sótt aðalfund. Hvert aðildarfélag fer með eitt atkvæði á fundinum. Aukaaðilar hafa ekki atkvæðisrétt en hafa rétt til þess að taka til máls og geta borið fram tillögur. Rétt til setu á aðalfundi hafa fulltrúar félagsaðila sem greitt hafa félagsgjöld næstliðins starfsárs. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum atkvæða á aðalfundi. Þetta gildir þó ekki um ákvörðun um breytingu á samþykktum þessum og ekki um ákvörðun um slit félagsins.

Á dagskrá aðalfundar eru eftirfarandi atriði:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Skýrsla stjórnar lögð fram.
 3. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
 4. Fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
 5. Ákvörðun um þóknun stjórnarmanna.
 6. Kosning stjórnar.
 7. Kosning endurskoðanda.
 8. Ákvörðun félagsgjalds
 9. Tillögur að breytingum á samþykktum, ef þær liggja fyrir.
 10. Önnur mál.

Tillögur sem leggja skal fyrir aðalfund frá félagsaðilum skulu sendar stjórn félagsins í síðasta lagi þremur vikum áður en aðalfundurinn skal haldinn. Fullbúin dagskrá skal vera aðgengileg félögum að minnsta kosti tveimur vikum fyrir aðalfund.

Aukafundi félagsaðila má halda þegar stjórn telur það nauðsynlegt eða ef a.m.k. 20% aðildarfélaga krefjast þess. Halda skal aukafund að kröfu félagsaðila innan sex vikna eftir að fullnægjandi beiðni þess

efnis hefur borist stjórnarformanni. Boða skal aukafund með fjögurra vikna fyrirvara. Ífundarboði skal

koma fram dagskrá aukafundar og framlagðar tillögur.

Stjórn er heimilt að ákveða að félagsaðilar geti tekið þátt í aðalfundi eða aukafundi félagsaðila með rafrænum hætti án þess að vera á fundarstað. Stjórn er jafnframt heimilt að ákveða að aðalfundur eða aukafundur félagsaðila verði aðeins haldinn rafrænt. Ákveði stjórn að nýta þessa heimild skal þess sérstaklega getið í fundarboði. Í fundarboði skulu koma fram upplýsingar um tæknibúnað auk upplýsinga um það hvernig félagsaðilar tilkynni um rafræna þátttöku sína og hvar þeir nálgist upplýsingar, leiðbeiningar og aðgangsorð til þátttöku í fundinum.

6. gr. - Félagsstjórn

Stjórn félagsins fer með málefni þess á milli aðalfunda í samræmi við ákvæði samþykkta þessara og ákvarðana aðal- og aukafunda. Undirritun meirihluta stjórnarmanna skuldbindur félagið. Stjórn félagsins stýrir og ráðstafar sjóðum þess. Þó skulu ákvarðanir sem hafa verulega fjárhagslega þýðingu fyrir félagið lagðar fyrir aðalfund til afgreiðslu.

Aðalfundur ákveður þóknun til stjórnarmanna.

Stjórn skal skipuð fimm til sjö stjórnarmönnum sem kjörnir eru á aðalfundi til eins árs í senn. Kjörgengir í stjórn eru starfsmenn félagsaðila. Tilkynna skal framboð til stjórnar eigi síðar en fimm dögum fyrir aðalfund. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

Stjórn mótar stefnu félagsins í samræmi við tilgang þess og skal tryggja að starfsemi þess sé jafnan í lögmætu horfi. Stjórn er einnig heimilt að útvista starfseminni í heild eða hluta til þess bærra aðila. Stjórn félagsins er heimilt að skipa nefndir og fagráð um einstaka hluta starfseminnar.

Stjórnin er ákvörðunarbær þegar minnst helmingur stjórnarmanna er mættur á fund og fundur hefur verið boðaður í samræmi við starfsreglur stjórnar. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundi. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði stjórnarformanns úrslitum

Það sem gerist á stjórnarfundum skal ritað í gerðabók félagsins. Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

7.gr. - Framkvæmdastjóri

Stjórn félagsins getur ráðið framkvæmdastjóra til félagsins og ákveður þá starfskjör hans. Félagsstjórn, eða framkvæmdastjóri verði hann ráðinn, hefur með höndum daglegan rekstur félagsins og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða hann.

8.gr. - Breyting á samþykktum

Breyting á samþykktum krefst samþykkis að minnsta kosti 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi eða aukafundi. Breytingin tekur gildi frá og með þeim fundi sem hún er samþykkt á.

9. gr. - Slit félagsins

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi eða aukafundi. Slíkur fundur er aðeins bær til að taka ákvörðun um slit félagsins ef mætt er á fundinn fyrir hönd 2/3 af aðildarfélögum miðað við fjölda

atkvæða. Ákvörðun um slit er gild eftir að tillaga þess efnis er samþykkt af 2/3 hluta atkvæða á slíkum fundi.

Við slit félagsins skulu eignir þess umfram skuldir renna til félagasamtaka eða verkefna sem hafa sömu markmið og tilgang og félagið gerir sbr. 2. gr. samþykkta þessara. Sá fundur sem tekur ákvörðun um slit félagsins skal einnig ráðstafa eignum félagsins í samræmi við framangreint.

10. gr. - Gildistaka

Samþykktir þessar voru upprunalega samþykktar á stofnfundi félagsins haldinn í Reykjavík þann 13. nóvember 2017 með breytingum 25. maí 2022

Samþykktir IcelandSIF samþykktar á aðalfundi og staðfestar af stjórn félagsins þann 25. maí 2023.