Ábyrgar fjárfestingar - praktísk nálgun fjárfesta

Höfundur greinar: Finnur Sveinsson sérfræðingur í samfélagsábyrgð

Ábyrgar fjárfestingar eru tiltölulega nýjar af nálinni sem sérstakur málaflokkur og fjárfestar eru almennt enn að feta sig í rétta átt hvernig eigi að nálgast viðfangsefnið.  UN PRI var stofnað 2006 og Skandinavísk systursamtök Iceland SIF eru álíka gömul.  Þegar þau samtök voru að slíta barnskónum skullu á fjármagnshöft á Íslandi sem takmörkuðu mjög fjárfestingar Íslendinga erlendis og öfugt.  Það má því segja að straumar og stefnur á þessu sviði hafi ekki byrjað að berast til okkar að alvöru fyrr en eftir að höftin voru felld niður.  Aðferðarfræði ábyrgra fjárfestinga er margskonar en því miður þá virðist sem að umræðan hérlendis hafi í byrjun fyrst og fremst snúist um útilokanir, að fjárfesta ekki í ákveðnum fyrirtækjum eða atvinnugreinum. Sú aðferðarfræði er notuð takmarkað erlendis og er á undanhaldi.  Í þessari grein ætla ég að fara í gegnum mismunandi aðferðarfræði, hvað ræður vali fjárfesta á aðferðarfræði og hvernig fjárfestar vinna með ábyrgar fjárfestingar.

Það er mikilvægt að hafa í huga að markmið ábyrgra fjárfestinga er markaðslegs eðlis, bæta eignasöfn, auka arðsemi, minnka áhættu og/eða auka traust.  

Nálgun ábyrgra fjárfestinga

Það er að myndast samastaða um að skipta nálgun ábyrgra fjárfestinga í fjóra megin flokka.  

Þemafjárfestingar (Thematic investment)

Þá er fjárfest fyrst og fremst í ákveðnum atvinnugreinum, yfirleitt með áherslu á umhverfismál eða samfélagslega þjónustu.  Þekktasta formið af þemafjárfestingum er að fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum.  

Skimun (Screening)

Jákvæð og neikvæð skimun eru sitthvor hliðin á sama peningnum. 

Jákvæð skimun

Jákvæð skimun felur í sér að fjárfesta eingöngu í fyrirtækjum sem uppfylla ákveðin viðmið t.d. ESG viðmið eða vera talin bestur í sinni atvinnugrein.  Jákvæðri skimun er stundum ruglað saman við þemafjárfestingar en það er samt grundvallarmunur.  Fjárfestar sem stunda eingöngu jákvæða skimun geta fjárfest í hvaða atvinnugrein sem er svo lengi sem fyrirtækin uppfylli ESG viðmið fjárfestisins.  Viðmiðið gæti t.d. verið að fjárfesta eingöngu í fimm samfélagslega ábyrgustu fyrirtækjunum í hverri atvinnugrein, sama hvort sú atvinnugrein kallist vopnaframleiðsla.  

Neikvæð skimun

Þekktasta form neikvæðrar skimunar er útilokun.  Það eru fáir fjárfestar sem nota eingöngu útilokun.  Flestir líta á útilokun sem viðbót við aðra aðferðarfræði og leggja þá áherslu á að útiloka eingöngu áfengi, tóbak, vopnaiðnað, kynlífsiðnað og fjárhættuspilamennsku.  

Það er oft álitamál hvort fyrirtæki teljist hafa t.d. hagsmuni af vopnaiðnaði.  Flókin eignasamsetning alþjóðafyrirtækja gerir það stundum að verkum að þau í gegnum dótturfélög geta átt hlut í fyrirtækjum sem fá hluta af tekjum sínum frá óæskilegri framleiðslu.  Af praktískum ástæðum er að myndast óformlegur sameiginlegur skilningur um að í gegnum slíkt eignarhald geti allt að 5% af tekjum verið frá „útilokuðum“ fyrirtækjum eða atvinnugreinum.   Þessi fimm prósent skal ekki taka of bókstaflega heldur skilja á þann máta að það sé ásættanlegt að óverulegur hluti tekna og framlegðar komi frá slíkum fyrirtækjum eða atvinnugreinum.  

Samtal um ESG þætti (ESG engagement)

Fjárfestar greina lykil ESG þætti sem eru viðeigandi og eiga samtal við fyrirtæki um þá og þróun þeirra.  Markmiðið er sem áður að bæta rekstur fyrirtækisins, minnka áhættu og gera fjárfestinguna verðmeiri.  

Samtalið er flóknara í framkvæmd en áðurnefndar aðferðir þar sem það krefst beinna samskipta fjárfestis og fyrirtækis.  Þemafjárfestingar og skimun er hægt að stunda eingöngu út frá opinberum gögnum.  Slíkt er vart hægt í samtali og því þarf að hafa aðgát.  

  • Um upplýsingagjöf skráðra fyrirtækja gilda ákveðnar reglur og samtalið þarf að eiga sér stað innan þess ramma.
  • Eingöngu fréttir um það að fjárfestir velur að eiga samtal við fyrirtæki um ESG þætti getur verið verðmyndandi og slíkt verið andstætt hagsmunum beggja aðila.

Fjárfestar þurfa því að setja sér reglur um samtalið og upplýsingagjöf þeim tengdum.  Það er nokkuð algengt að fjárfestar tilgreini við hve marga samtal hefur átt sér stað án þess að greina frá við hverja.  

Almenningur upplifir samtalsnálgunina ekki eins gagnsæja og þemafjárfestingar og skimun. Samtal er líklega virkasta aðferð ábyrgra fjárfestinga en erfiðari að skýra út og selja.

Áhrifafjárfestingar (Impact investment)

Hér er megináhersla lögð á samfélagsleg eða umhverfisáhrif fjárfestinganna frekar en fjárhagslegan ávinningi.  Skilgreindir eru samfélagslegir mælikvarðar sem á að ná með fjárfestingunni og ganga þeir fyrir fjárhagslegum ávinningi.  Áhrifafjárfestingar eru fyrst og fremst stundaðar af einstaklingum eða einkafjárfestingasjóðum og eru svo til óþekktar á Íslandi.

Val á nálgun

Hvaða nálgun fjárfestir velur byggir fyrst og fremst á markaðsaðstæðum viðkomandi.  Þeir fjárfestar sem eru háðir einstaklingum, pólitískt eða með innstreymi fjármagns, eru líklegri til að ástunda þemafjárfestingar eða skimun frekar en samtal.  Það helgast af því að þær aðferðir er auðveldar að útskýra eða markaðssetja og þær virðast gagnsærri.  Samkvæmt upplýsingum frá norrænum lífeyrissjóðum þá voru frjálsir lífeyrissjóðir líklegri til að stunda skimun en þeir sem eingöngu voru með skyldulífeyrissparnað. 

Pólitískar og/ eða landfræðilegar ástæður geta einnig skipt máli þar sem einstök málefni hreyfa meira við almenningi en á öðrum svæðum.  Þannig má nefna að UBS útilokaði fyrirtæki sem framleiddi vatn á flöskum vegna þrýstings frá Svissneskum almenningi.  Í þessu samhengi má einnig velta fyrir sér áherslum norska olíusjóðsins á útlokun og hvort það stafi af opinberu eignarhaldi hans. 

Það eru síðan fyrst og fremst einstaklingar og einkasjóðir sem ástunda áhrifafjárfestingar.

Hver er þróunin?

DanSif, dönsku systursamtök IcelandSif, gera reglulega úttekt á stöðu ábyrgra fjárfestinga í Danmörku.  Í þeim könnunum er meðal annars spurt um nálgun fjárfesta.  Síðasta könnun var gerð í september 2017 og er niðurstaðan nokkuð skýr, fjárfestar eru að færa sig úr skimun yfir í skimun og samtal.

Skimun


2017: 25%

2015: 46%


Skimun/Samtal


2017: 48%

2015: 22%


Skimun/Þema/Samtal


2017: 17%

2015: 12%


Aðrar samsetningar


2015: 10%

2017: 20%


Hlutfall þeirra sem eingöngu ástunda skimun hefur næstum helmingast á tveimur árum meðan að skimun og samtal hefur tvöfaldast.  

Niðurstöðurnar eru einnig í samræmi við sambærilegar athuganir hjá PRI en í árbók samtakanna fyrir 2017 kemur fram að 46% félaga ástunda skimun, 12% þemafjárfestingar en 81% samtal.

Það er líklegt að þróunin á Íslandi verði sambærileg við það hvernig hún var á hinum norðurlöndunum, bara hraðari.  Þegar rætt er um ábyrgar fjárfestingar hérlendis er útilokun það sem flestir nefna fyrst.  Vegna smæðar markaðarins og takmarkaðra fjárfestingamöguleika, þá voru fjárfestar skiljanlega ekki tilbúnir að takmarka enn fjárfestingamöguleika sína með útilokunum.  Með stofnun IcelandSif er skilningur og  þekkingin á mismunandi nálgun og aðferðarfræði að aukast sem leiðir til þess að fjárfestar treysta sér betur í samtalið.

Næsta áskorun fjárfesta er að skapa ramma í kringum hvernig samtalið fer fram og upplýsingagjöf því tengdu.  

Um höfundinn

Finnur Sveinsson sérfræðingur í samfélagsábyrgð:

Viðskiptafræðingur frá HÍ 1991  með master í umhverfisfræði frá háskólanum í Gautaborg (1998)

Vann í markaðsdeild Íslandsbanka 1991 til 1995.  Á árunum 1995 til 2007 bjó Finnur í Gautaborg og vann að fjölmörgum verkefnum á sviði umhverfis- og samfélagsábyrgðar hjá sænskum fyrirtækjum. Þegar hann flutti aftur til Íslands árið 2007 hafði hann þegar unnið í rúmt ár að verkefnum hjá Alcoa Fjarðaál tengdum innkaupum, innkaupum og samfélagsábyrgð og hélt því áfram til árloka 2010.  Í upphafi árs 2011 hóf Finnur störf hjá Landsbankanum sem yfirmaður samfélagsábyrgðar hjá bankanum.  Finnur yfirgaf bankann í lok árs 2015 og hefur síðan þá unnið sem ráðgjafi samtímis sem hann byggði fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi yfir sig og fjölskyldu sína.