Ábyrgar fjárfestingar fyrir fullu húsi

20/02/2018

„Cape Town í Suður-Afríku verður fyrst stórborga til að klára drykkjarvatnslindir sínar og það gerist núna í mars. Þetta er alvara málsins i hnotskurn,“ sagði Roelfien Kuijpers, framkvæmdastjóri á sviði ábyrgra fjárfestinga hjá Deutsche Bank, á morgunfundi IcelandSIF, samtaka um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Morgunfundurinn á Hilton Reykjavík Nordica var fyrsta opinberi fundur  IcelandSIF. 

Fullt var út úr dyrum, hvert sæti skipað og varð að ferja fleiri stóla inn í salinn í upphafi fundar. 

Þrír erlendir gestir höfðu framsögu: Pia Rudolfsson Goyer, mannréttindalögfræðingur á vegum Norska olíusjóðsins og stjórnarmaður hjá NorSIF – systursamtökum IcelandSIF í Noregi; Yulia Sofronova, forstöðumaður tengslanets PRI á Norðurlöndum og í Mið- og Austur-Evrópu, og Roelfien Kuijpers framkvæmdastjóri hjá Deutsche Bank með aðsetur í New York.

Hrefna Sigfinnsdóttir, stjórnarformaður IcelandSIF, setti fundinn og fundarstjóri var Sveinn Þórarinsson, hlutabréfagreinandi hjá Landsbankanum.

Að loknum framsöguerindum lvoru pallborðsumræður þar sem sátu fyrir svörum Roelfien Kuijpers, Yulia Sofronova, Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, og Óli Freyr Kristjánsson, sérfræðingur í eignastýringu Arion Banka.

Deutsche Bank sækir um aðild

Erlendu gestirnir lýstu mikilli ánægju með að 25 fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög hefðu í nóvember 2017 stofnað IcelandSIF. Þeir lofuðu myndarlegum stuðningi við hin nýstofnuðu samtök og hvöttu íslensku nýliðana til að notfæra sér möguleika til að nýta reynslu, þekkingu og upplýsingar sem hægt væri að sækja til erlendra systursamtaka og alþjóðasamtaka á sviði ábyrgra fjárfestinga.

„Þið hafið mikla og einstæða möguleika á Íslandi, einmitt vegna þess að hér býr tiltölulega fámenn þjóð. Upplýsið og beitið ykkur fyrir því að upplýsingar um umhverfis- og loftlagsmál nái inn í skólakerfið, alveg frá grunnskóla og upp úr,“ sagði Roelfien Kuijpers og bætti við: 

„Ríkisstjórinn í Washington orðaði það svo að við værum „fyrsta kynslóðin sem kynntumst áhrifum loftlagsbreytinga og sú síðasta sem gæti gert eitthvað í málinu.“ Fellibyljir valda aftur og aftur gríðarlegu tjóni og eyðileggingu í Bandaríkjunum. Þurrkar í Afríkuríkjum hafa bein áhrif á sjálfbærni, efnahag og samfélögin yfirleitt. Þannig birtast meðal annars áhrif loftlagsbreytinga.“

Roelfien fjallaði um innleiðingarsögu Deutsche Bank á sviðið ábyrgra fjárfestinga og nær sagan yfir tuttugu ár. Hún sagði að þeim væri mjög umhugað um að málaflokkurinn fengi stuðning sem víðast og til að sýna það í verki myndu þau sækja um aðilda að IcelandSIF.

Skoðanaskipti eru fyrsti kostur

Pia Rudolfsson Goyer fjallaði nokkuð um siðareglur Norska olíusjóðsins og hvernig starfað væri eftir þeim. Sjóðurinn fjárfestir í um 9.000 félögum í 77 ríkjum og hefur mikil áhrif á viðhorf og viðmið fjárfesta um víða veröld. 

Siðareglur Norska olíusjóðsins kveða á um að ekki skuli fjárfesta í félögum í rekstri sem tengst gætu mannréttindabrotum, alvarlegum umhverfisspjöllum eða spillingu.

„Við flytum ekki norskar siðareglur út á alþjóðamarkaðinn heldur styðjumst við alþjóðleg viðurkennd markmið og yfirlýsingar. 

Ef við teljum eitthvað athugavert við starfsemi fyrirtækja, sem við fjárfestum í, könnum við málið og fáum staðreyndir upp á borðið. Við ræðum við fulltrúa fyrirtækjanna og spyrjum hvað þeir ætli að gera og hvernig þeir vilji bregðast við. Skoðanaskipti og umræður eru þannig alltaf fyrsti kostur í samskiptum en mikilvægt er að sjónarmið okkar og niðurstöður eru opinberar. 

Siðareglur okkar eru opinberar og við störfum eftir þeim fyrir opnum tjöldum.“

Erlendu frummælendurnir lögðu mikla áherslu á opna og aðgengilega umræðu og skoðanaskipti: fréttabréf, vefsíður, Twitter, o.s.frv. og samstarf. 

„Við viljum uppfræða og upplýsa fólk í okkar röðum og utan okkar raða. Við vinnum með keppinautum og við vinnum með viðskiptavinum“, sagði Roelfien Kuijpers frá Deutsche Bank.

Viðtal í Kastljósi RÚV

Pia Rudolfsson Goyer fór í viðtal hjá Boga Ágústssyni um siðareglur Norska olíusjóðsins. Viðtalið hefst á mín 9:10 og birtist í Kastljósi 26. febrúar 2018.


Pia Rudolfsson Kastljós


Myndir frá ráðstefnunni