Hugtök og skilgreiningar

Ábyrgar fjárfestingar (e. Responsible Investment (RI))

Ábyrgar fjárfestingar eru fjárfestingaraðferðir sem taka mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) við fjárfestingarákvarðanir með það að markmiði að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma.

Ábyrgir fjárfestar geta haft mismunandi markmið. Sumar aðferðir einblína eingöngu á fjárhagslega ávöxtun og taka tillit til UFS þátta sem gætu haft áhrif á ávöxtunina. Aðrar miða að því að skapa fjárhagslega ávöxtun ásamt því að stuðla að jákvæðum árangri fyrir fólk og jörðina.

Nánari upplýsingar á vef UN PRI

Corporate Sustainability Reporting Directive (CSRD)

Corporate Sustainability Reporting Directive eða CSRD er tilskipun (ESB) 2022/2464 um upplýsingagjöf um sjálfbærni sem felur í sér nýjar reglur um birtingu sjálfbærniupplýsinga.

Með CSRD er gerð tilraun til að leysa ýmis vandamál fyrri reglna um birtingu sjálfbærniupplýsinga.

Forveri CSRD (NFRD eða Non-Financial Reporting Directive) þótti ekki nógu skýr, upplýsingarnar ósamanburðarhæfar á milli fyrirtækja og erfitt að meta raunverulega sjálfbærniáhættu fjárfestinga og sjálfbærnitengda áhættuþætti í rekstri fyrirtækja.

European Sustainability Reporting Standards (ESRS)

Eru ítarlegir staðlar um efni og inntak sjálfbærniupplýsinga á grundvelli CSRD:

  • Fimm staðlar um umhverfismál (ESRS E1-E2-E3-E4-E5).
  • Fjórir staðlar um félagsleg mál (ESRS S1-S2-S3-S4).
  • Einn staðall um stjórnarhætti (G1).
  • Eingöngu skylda til birta upplýsingar um þá staðla sem eru mikilvægir fyrir hvert og eitt fyrirtæki út frá tvöföldu mikilvægisgreiningunni.
  • Almenn upplýsingaskylda samkvæmt ESRS 1 og ESRS 2.

Félagsleg skuldabréf (e. Social Bonds)

Félagsleg skuldabréf eru hvers kyns skuldabréfagerningar þar sem fjármununum er eingöngu varið til að fjármagna eða endurfjármagna ný eða fyrirliggjandi félagsleg verkefni, að hluta eða að fullu (sjá 1. kafla, Ráðstöfun fjármuna), og sem samræmast fjórum grunnstoðum viðmiða um félagsleg skuldabréf. Til eru mismunandi gerðir félagslegra skuldabréfa á markaðinum.

Félagslega ábyrgar fjárfestingar (e. Socially Responsible Investments (SRI))

Félagslega ábyrgar fjárfestingar (SRI) er fjárfesting sem er talin samfélagslega ábyrg vegna eðli starfseminnar sem fyrirtækið stundar. Félagslega ábyrgar fjárfestingar geta farið fram með eign í fyrirtækjum jákvæð félagsleg áhrif, eða í gegnum samfélagslega meðvitaðan verðbréfasjóð eða kauphallarsjóð (ETF).

Sjá nánar

Flokkunareglugerð ESB (e. EU Taxonomy)

Reglugerð (ESB) 2020/852 sem í daglegu tali er kölluð flokkunarreglugerð ESB (e. EU Taxonomy) var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

Flokkunarreglugerðin setur fram samræmt flokkunarkerfi með því að lýsa hvaða viðmiðum atvinnustarfsemi þarf að fullnægja til að teljast vera umhverfislega sjálfbær, og gerir fyrirtækjum kleift að meta hvort starfsemi þeirra sé umhverfislega sjálfbær eða ekki.

Flokkunarkerfið skapar sameiginlegt tungumál í umræðu um sjálfbærni og samræmir skilning á hugtakinu umhverfissjálfbær atvinnustarfsemi.

GRI – Global Initiative Report

Global Reporting Initiative (þekkt sem GRI) er alþjóðleg óháð staðlastofnun sem hjálpar fyrirtækjum, stjórnvöldum og öðrum stofnunum að skilja og miðla áhrifum þeirra á málefni eins og loftslagsbreytingar, mannréttindi og spillingu í samfélagsskýrslu.

Markmið með samfélagsskýrslu er meðal annars að fyrirtæki viti hver eru samfélagsáhrif starfseminnar, það sé verið að vakta þau og þau geti sýnt fram á framfarir.

Græn skuldabréf (e. Green Bonds)

Græn skuldabréf eru hvers kyns skuldabréfagerningar þar sem fjármunum er eingöngu varið til að fjármagna eða endurfjármagna ný eða fyrirliggjandi græn verkefni, að hluta eða að fullu (sjá 1. kafla, Ráðstöfun fjármuna), og sem samræmast fjórum grunnstoðum viðmiðanna um græn skuldabréf. Til eru mismunandi gerðir grænna skuldabréfa á markaðinum.

Sjá nánar á vef International Capital Market Association: ICMA

Græn skuldabréf, loftslagsskuldabréf, umhverfisskuldabréf, félagsleg skuldabréf, sjálfbærniskuldabréf og UFS-skuldabréf

Í skilningi viðmiða um græn skuldabréf taka græn skuldabréf bæði til loftslags- og umhverfisskuldabréfa, svo fremi sem þau samræmast fjórum grunnstoðum viðmiða um græn skuldabréf.

Í viðmiðum um félagsleg skuldabréf er sett fram skilgreining á félagslegum skuldabréfum, og í viðmiðum um sjálfbærniskuldabréf er sett fram skilgreining á sjálfbærniskuldabréfum.

Sameiginlegt einkenni grænna skuldabréfa, félagslegra skuldabréfa og sjálfbærniskuldabréfa er að ráðstöfun fjármuna er fyrirfram ákveðin og að þau séu í samræmi við sameiginleg viðmið.

Útgefendur eru hvattir til að nota heitin „græn skuldabréf“, „félagsleg skuldabréf“ eða „sjálfbærniskuldabréf“, eins og við á, þegar útgáfan samræmist fjórum grunnstoðum viðmiðanna.

UFS-skuldabréf fela einnig í sér viðmið um stjórnarhætti sem ekki er að finna í viðmiðum um græn skuldabréf, félagsleg skuldabréf eða sjálfbærniskuldabréf og kunna að vísa til alhliða sjálfbærni útgefandans en ekki eingöngu tiltekinnar ráðstöfunar fjármuna.

Sjá nánar á vef International Capital Market Association: ICMA

Neikvæð áhrif (e. principal adverse impacts)

Þau helstu neikvæðu áhrif af atvinnustarfsemi á sjálfbærniþætti sem má rekja til fjárfestingarákvörðunar, þegar áhrifin eru annað hvort veruleg eða líklega veruleg.

Slík neikvæð áhrif eru á ensku nefnd principal adverse impacts, skammstafað PAI.

Tekið er tillit til helstu neikvæðu áhrifa með greiningu á undirliggjandi afurð með notkun svokallaðra sjálfbærnivísa. Slíkir vísir eru nýttir til að mæla hvernig fyrirtæki sem fjárfest er í hefur áhrif á sjálfbærniþætti, en tæknistaðall ESB nr. 2022/1288 leggur m.a. fram 14 skyldubundna sjálfbærnivísa fyrir milliliði sem taka tillit til helstu neikvæðra áhrif á sjálfbærni.

Samfélagsábyrgð fyrirtækja (e. Corporate Social Responsibility (CSR))

Samfélagsábyrgð vísar til þess að fyrirtæki taki ábyrgð á áhrifum sínum á samfélagið.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur skilgreint samfélagslega ábyrgð fyrirtækja sem "hugtak yfir þegar fyrirtæki samþættir félagsleg og umhverfissjónarmið í viðskiptum sín, starfsemi og inní samskipti þeirra við hagsmunaaðila sína sjálfviljug“

Samfélagsábyrgð getur hjálpað til við að bæta samfélagið og stuðla að jákvæðri vörumerkjaímynd fyrirtækja.

Sjá nánar á vef Evrópusambandsins

Sjálfbærni (e. Sustainability)

Hugtakið sjálfbærni gerir ráð fyrir að auðlindir séu takmarkaðar og þær beri að nýta af varfærni. Einnig á að meta afleiðingar þess hvernig auðlindir eru nýttar. Sjálfbærni hefur venjulega þrjár víddir: umhverfislega, efnahagslega og félagslega.

Sustainability explained with simple natural science (myndband)

Sjálfbærniáhætta

Atburður eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gæti, ef hann gerist, haft raunveruleg eða hugsanleg veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestingarinnar.

Hugtakið er skilgreint í 22. tölul. 1. mgr. 2. gr. SFDR (Sustainable Finance Disclosure Regulation).

Sjálfbærnióskir fjárfesta samkvæmt MiFID II

Fjármálafyrirtæki sem veita eignastýringarþjónustu eða fjárfestingarráðgjöf verða að spyrja fjárfesta hvort þeir hafi sérstakar óskir um sjálfbærni áður en þjónustan er veitt, samkvæmt lögunum.

Þessum upplýsingum er aflað í svokölluðu hæfismati sem fjármálafyrirtækjum er skylt að framkvæma áður en eignastýringarþjónusta eða fjárfestingarráðgjöf er veitt.

Fjármálafyrirtæki verða að taka tillit til sjálfbærnióska og neyðast til að vísa fjárfestum frá ef þau geta ekki uppfyllt óskir þeirra.

Fjárfestar geta þó ákveðið að aðlaga óskir sínar að vöruúrvali fjármálafyrirtækisins.

Sjálfbærniþættir

Umhverfis-, félags- og starfsmannatengd mál, virðing fyrir mannréttindum, mál sem varða baráttuna gegn spillingu og mútum.

Hugtakið er skilgreint í 24. tölul. 1. mgr. 2. gr. SFDR (Sustainable Finance Disclosure Regulation).

Sustainable Finance Disclosure Regulation (SFDR)

Reglugerð Evrópusambandsins um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu, nr. 2019/2088.

SFDR var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 25/2023, sem tóku gildi 1. júní 2023.

Reglugerðin leggur tilteknar skyldur á aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa, þ.m.t. rekstraraðila sjóða, lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki sem sinna eignastýringu eða fjárfestingarráðgjöf, tryggingafélög og lífeyrissjóði.

Markmið reglugerðarinnar er að auka gagnsæi fyrir fjárfesta og auka samræmda upplýsingagjöf.

Tvíátta mikilvægisgreining (e. double materiality assessment)

CSRD skyldar tiltekin félög m.a. til að framkvæma tvíátta mikilvægisgreiningu á starfsemi sinni, þar sem annars vegar þarf að mæla hvaða áhrif starfsemin hefur á ytra umhverfi og hins vegar hvaða áhrif sjálfbærniþættir hafa á rekstur félagsins.

Mikilvægisgreiningin er mikilvægt skref fyrir fyrirtæki þar sem niðurstöður greiningarinnar ákvarða hvaða ESRS staðlar skulu notaðir við skýrslugerð.

UFS leiðbeiningar Nasdaq (e. ESG Metrics)

Staðlaráð að frum­kvæði Festu, IcelandSIF og Nasdaq Iceland/Kaup­hall­ar­innar, hefur þýtt fyrir­sagnir ESG leið­bein­inga Nasdaq (ESG Metrics) yfir á íslensku.

Leið­bein­ing­unum er ætlað að aðstoða fyrir­tæki að birta upplýs­ingar um samfé­lags­ábyrgð; eða umhverf­ismál, félags­lega þætti og stjórn­ar­hætti, á skýran og aðgengi­legan hátt fyrir fjár­festa og aðra hags­muna­aðila. Leið­bein­ing­unum er fyrst og fremst ætlað að hjálpa fyrir­tækjum að koma til móts við auknar kröfur fjár­festa og samfé­lagsins um birt­ingu upplýs­inga er varða samfé­lags­ábyrgð.

Sjá nánar UFS leiðbeiningar Nasdaq febrúar 2020

Umhverfislegir og félagslegir þættir og stjórnarhættir (UFS) (e. Environmental, Social and Governance (ESG))

Hvað er átt við með viðmiðum umhverfislegra og félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS)?

Umhverfislegir og félagslegir þættir og stjórnarhættir (UFS) eru viðmið sem fjárfestar nota til að meta fjárfestingar út frá aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Umhverfisleg viðmið snúa að því hvernig fyrirtæki gætir að umhverfislegum áhrifum starfsemi sinnar. Félagsleg viðmið snúa að því hvernig fyrirtæki kemur fram við starfsfólk sitt, birgja, viðskiptavini og samfélagið sem það starfar í. Viðmið um stjórnarhætti snúa t.d. að stjórnun fyrirtækja, launum framkvæmdastjóra, innra eftirliti og réttindum hluthafa.

Umhverfislegir og félagslegir þættir og stjórnarhættir (UFS) samanstanda af fjölmörgum og síbreytilegum atriðum, m.a:

Umhverfislegir þættir

  • Loftslagsbreytingar
  • Gróðurhúsalofttegundir
  • Skerðing auðlinda, þar með talið vatns
  • Úrgangur og mengun
  • Skógeyðing

Félagslegir þættir

  • Vinnuskilyrði, þ.m.t. þrælahald og barnavinna
  • Nærsamfélög, þ.m.t. frumbyggjasamfélög
  • Átök
  • Heilbrigði og öryggi
  • Samskipti og tengsl fyrirtækis og starfsfólks Fjölbreytileiki

Stjórnarhættir

  • Laun framkvæmdastjóra
  • Mútuþægni og spilling
  • Starfsemi þrýstihópa (e. political lobbying) og framlög til stjórnmála
  • Fjölbreytni og fyrirkomulag stjórnar
  • Skattastefna

Nánar á vef Investopedia

Umhverfismarkmið ESB

Sex umhverfismarkmið sem eru skilgreind í flokkunarreglugerð ESB (EU Taxonomy):

  1. Mildun loftslagsbreytinga.
  2. Aðlögun að loftslagsbreytingum.
  3. Sjálfbær notkun og verndun vatns- og sjávarauðlinda.
  4. Umbreyting yfir í hringrásarhagkerfi.
  5. Mengunarvarnir og -eftirlit.
  6. Verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.

Umhverfissjálfbær atvinnustarfsemi

Atvinnustarfsemi telst umhverfissjálfbær í skilningi flokkunarkerfisins þegar hún fylgir fjórum viðmiðum sem útlistuð eru í 3. gr. reglugerðarinnar:
1. Stuðlar verulega að einu eða fleiri umhverfismarkmiðum
2. Skaðar ekki verulega önnur umhverfismarkmið
3. Er stunduð í samræmi við lágmarksverndarráðstafanir
4. Hlítir tæknilegum matsviðmiðum

UN Global Compact

UN Global Compact er samstarfsverkefni Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífsins sem felur í sér 10 grunnreglur á sviði mannréttinda, vinnumarkaðs, umhverfismála og baráttu gegn spillingu. UN Global Compact er stærsta frumkvæði samfélagsábyrgðar fyrirtækja í heiminum, en yfir 20.000 fyrirtæki og hagsmunaaðilar í yfir 167 löndum eru þátttakendur.

Nánari upplýsingar á UN Global Compact

UN Global Compact á Íslandi

UN PRI – Principles for Responsible Investment

Principles for Responsible Investment eru alþjóðleg samtök fjárfesta sem vinna saman að því að innleiða tiltekin grundvallarviðmið um ábyrgar fjárfestingar og njóta til þess stuðnings Sameinuðu þjóðanna. Samtökin voru stofnuð árið 2005 fyrir tilstuðlan Kofi Annan þáverandi ritara Sameinuðu þjóðanna (SÞ) þegar hann bauð hópi stofnanafjárfesta til þátttöku í að þróa grunnstoðir ábyrgra fjárfestinga. Þær voru kynntar í apríl 2006 Kauphöllinni í New York. Síðan þá hefur aðildarfélögum fjölgað úr 100 í yfir 5200 víðsvegar að úr heiminum.

Sex meginreglur PRI eru:

  1. Við munum taka mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) við greiningu fjárfestingarkosta og við ákvörðunartöku
  2. Við ætlum að vera virkur eigandi sem tekur tillit til UFS bæði í eigendastefnum og í verki
  3. Við munum kalla eftir viðeigandi upplýsingagjöf um UFS frá aðilum sem við fjárfestum í
  4. Við munum beita okkur fyrir viðurkenningu á og innleiðingu þessara meginreglna í fjárfestingarstarfsemi
  5. Við munum vinna saman að því að efla árangur við innleiðingu meginreglnanna
  6. Við skilum öll skýrslum um starfsemi okkar og upplýsum um árangur við innleiðingu meginreglnanna

Nánar um PRI á vef SÞ