Fjarfundur um fyrirkomulag aðalfunda

2/11/2022

IcelandSIF hélt hádegisfund (fjarfund) þann 2. nóvember 2022 um fyrirkomulag aðalfunda og þær breytingar sem orðið hafa vegna áhrifa Covid-19 og nýrra stafrænna lausna.

Erindi flutti Dr. Þröstur Olaf Sigurjónsson prófessor við viðskiptafræðideild HÍ og Copenhagen Business School. Fundarstjóri var Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo og stjórnarmeðlimur í IcelandSIF.

Þröstur fór yfir þær áskoranir og tækifæri sem hafa fylgt þeirri breytingu sem orðin er á fyrirkomulagi aðalfunda vegna áhrifa Covid-19 og nýrra stafrænna lausna. Almennt er talið að virk mæting og þátttaka hluthafa sé nauðsynlegt skilyrði fyrir árangursríka aðalfundi og góða stjórnarhætti. Tilgangur aðalfunda er jafnframt m.a. sá að hluthafar fái aðgang að upplýsingum, að stjórn og stjórnendum og svo til að kjósa um málefni viðkomandi félags. Þröstur fór yfir það að sumar áskoranir og tækifæri kunna að vera í andstöðu við tilgang aðalfunda. Þar ræddi hann sérstaklega um hluthafalýðræði í því samhengi en ólíkar skoðanir eru m.a. á virkri þátttöku hluthafa sem fara fyrir óverulegum eignarhlut í félagi.

Þá fór Þröstur yfir niðurstöðu könnunar sem þar sem spurt var um viðhorf innlendra hagaðila til rafrænna og hybrid aðalfunda. Þeir þættir sem skoruðu hæst fyrir hybrid og rafræna aðalfundi eru að slíkir fundir eru umhverfisvænir, draga úr kostnaði, styðja góða skilvirkni í kosningum og þátttaka breiðari hóps hluthafa er möguleg. Þeir þættir sem skoruðu lægst fyrir hybrid og rafræna aðalfundi eru að samskipti og tengslamyndun þátttakanda eru óformleg og krefjandi tillögur fá ekki næga umfjöllun. Flestir hagaðilar telja þó að form aðalfunda á hybrid formi, þ.e. blanda af rafrænum fundum og staðfundum verði það sem koma skal til framtíðar.

Hér má nálgast kynninguna frá fundinum og niðurstöðu könnunar um fyrirkomulag aðalfunda:

Erindi Dr. Þrastar Olaf Sigurjónssonar