Vel sóttur fundur um græn skuldabréf Landsvirkjunar

9/10/2018

Í dag stóð IcelandSIF fyrir fræðslufundi um græn skuldabréf útgefin af Landsvirkjun. Fundurinn sem haldinn var í höfuðstöðvum Landsvirkjunar að Háaleitisbraut var vel sóttur af um 50 áhugasömum fundargestum og meðlimum samtakanna IcelandSIF.

Jóhann Þór Jóhannsson, yfirmaður lánamála hjá Landsvirkjun, hélt erindi um fyrrnefnda útgáfu Landsvirkjunar á grænum skuldabréfum en Landsvirkjun var fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að gefa út slík bréf fyrr á þessu ári.

Erindið samanstóð af kynningu á Landsvirkjun auk þess sem rædd voru leiðbeinandi viðmið ICMA um útgáfu grænna skuldabréfa. Útgáfa grænna skuldabréfa hefur stóraukist á undanförnum árum frá því fyrstu bréfin voru gefin út árið 2007. Þá fór Jóhann Þór einnig yfir ferlið sem Landsvirkjun stóð frammi fyrir við útgáfu grænna skuldabréfa í lokuðu skuldabréfaútboði í Bandaríkjunum (e. USPP).

Fundargestir báru fram fjölda spurninga og ljóst er að mikill áhugi er á ábyrgum fjárfestingarkosti eins og grænum skuldabréfum.

Fundarstjóri fundarins var Kristbjörg M. Kristinsdóttir, meðlimur í viðburðarhópi IcelandSIF.