Þróun ábyrgra fjárfestinga og tækifærin í félagslega þættinum

22/12/2021

Íslenskir stofnanafjárfestar hafa síðastliðin ár aukið stórlega við þekkingu sína þegar kemur að ábyrgum fjárfestingum og hafa þeir flestir sett sér stefnur og verklag til þess að innleiða aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga með einum eða öðrum hætti. Áhuginn og skilningur hefur farið í gegnum ákveðið þroskaferli sem verður rakið hér stuttlega. Einnig skyggnumst við inn í hvað er næst á dagskrá í þessum efnum og hvernig við getum ýtt við þróun og útgáfu ábyrgra fjárfestingarkosta á Íslandi.

Í þeirri sjálfsskoðun sem fór fram í íslensku atvinnulífi eftir efnahagshrun stóð það okkur næst að skoða stjórnarhætti félaga. Það var alveg ljóst og allir voru sammála um að formfesta og ígrunduð umræða um stjórnarhætti var eitthvað sem öllum fyrirtækjum og stofnunum var hollt að fara í gegnum. Stjórnarhættir eru þægilegir að því leyti að stór hluti þeirra er lögbundinn og það að fylgja lögum er sjálfgefið, en svo bætist við ákveðin vídd í stjórnarhættina sem gerir þá dýnamíska og við þekkjum sem „fylgið eða skýrið“ nálgunina. Þetta gefur fyrirtækjum kost á að útskýra af hverju skapalónið hentar því fyrirtæki ekki að fullu og mögulega eru ákveðin umbótaverkefni í gangi sem miða að því að vera komin á góðan stað með viðfangsefnið í framtíðinni. Að mínu mati var það gott fyrir stofnanafjárfesta að byrja á stjórnarháttunum og byggja upp sjálfstraust í þeirri umræðu því við sjáum að viðfangsefni umhverfis og félagslegra málefna er ögn flóknara.

Umhverfismálin eru okkur afar hugleikin þessa stundina og ekki endilega af góðu. Við göngum of nálægt auðlindum okkar með ósjálfbærum hætti, neysluvenjur Vesturlandabúa, sóun og óhagkvæmir framleiðsluferlar eru að koma okkur í óefni og þrátt fyrir tilraunir á COP26 náðu þjóðarleiðtogar heimsins ekki samstöðu um þau megin markmið sem þar voru sett fram, þótt margir minni sigrar hafi vissulega unnist. Það sem vakti þó athygli voru skýr skilaboð fjármagnsmarkaðarins á heimsvísu sem skuldbatt sig ríkulega. Þar voru íslenskir lífeyrissjóðir engir eftirbátar en 13 þeirra ætla að fjárfesta fyrir 580 milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum. Þetta lýsir skýrum vilja þeirra sem fara með fé almennings sem mun skila sér í betra samfélagi fyrir okkur öll.

Ein af skuggahliðum fjárfestinga í t.d. grænum fjárfestingarkostum er hinn svokallaði grænþvottur. Hvort sem honum er beitt viljandi eða óviljandi dregur hann mögulega úr tiltrú á þau áhrif sem fjárfestingarkostunum er ætlað að hafa á samfélagið. Evrópusambandið hefur stigið mikilvæg skref til að samræma upplýsingagjöf um fjárfestingarkosti og má þar helst nefna flokkunarreglugerðina eða EU Taxonomy þar sem flokkunarkerfi mun leiða í ljós hvort ákveðinn fjárfestingarkostur telst sjálfbær út frá umhverfisþáttum. Það var svo nú í byrjun desembermánaðar sem útfærðar voru reglur í formi afleiddrar reglugerðar sem lýsa þeim tæknilegu viðmiðum sem notast skal við til að meta hvort fjárfestingarkostur leggur verulega af mörkum við að draga úr eða aðlaga sig að loftslagsbreytingum. Þessar reglur taka gildi í Evrópu 1. janúar 2022. Það skiptir okkur miklu máli að samræming upplýsinga og viðmiða sé skýr til að ýta undir tiltrú á þær breytingar sem verið er að stuðla að til lengri tíma litið.

Það er mitt mat að þrátt fyrir að fæstir séu útskrifaðir sérfræðingar í mati á umhverfisáhrifum fjárfestinga erum við núna komin með verkfæri í töskuna sem munu færa okkur nær því að taka upplýsta afstöðu líkt og gerðist þegar við fengum sjálfstraust til að takast á við málefni stjórnarhátta.

Það sem þá stendur eftir eru félagslegir þættir sem sennilega er sá málaflokkur sem getur verið erfiðast að skilja og ákvarða við mat á fjárfestingum. Hvað telst árangur í félagslegum þáttum? Hvernig getum við aukið við framboð fjárfestingarkosta sem ýta undir jákvæða félagslega þróun?

Einn þáttur sem olli vonbrigðum eftir COP26 var sá að þróuð ríki gengust við því að þau myndu hvorki ná að að sjá þróunarríkjum fyrir fjárhagsaðstoð til að takast á við loftslagsbreytingar né að sjá þeim fyrir efnivið fyrir aðlögun að því marki sem ákveðin var á COP15 í Kaupmannahöfn 2009. Því markmiði að veita þróunarríkjum árlega 100 milljarða dollara verður líklega ekki náð fyrr en árið 2023 sem mun svo renna sitt skeið á enda árið 2025. Loftslagsbreytingar munu koma hvað verst niður á þróunarríkjum, auka fátækt og minnka tækifæri t.d. kvenna til menntunar. Í ljósi þess vilja sem ríkir meðal stofnanafjárfesta til fjárfestinga sem stuðla að kolefnishlutleysi má ímynda sér að fjárfestingar sem tengjast bæði félagslegri uppbyggingu og snúa að lausnum og úrlausn vandamála tengdum loftslagsbreytingum í þróunarríkjum gætu verið eitt mesta tækifæri til sjálfbærrar langtíma verðmætasköpunar í heiminum.

Ef við höldum áfram að skoða þau tækifæri sem felast í félagslegum fjárfestingum er mögulega nærtækast að líta heim til Íslands. Fjárfestingar þurfa að bera árangur, fjárhagslegan og ófjárhagslegan ávinning sem stuðlar að öðrum fyrirséðum og ófyrirséðum samfélagslegum breytingum sem munu svo á endanum skapa aukið fjárhagslegt virði eða minnka áhættu af fjárhagslegu tapi. Þetta er þá í raun hringrás sem hér er lýst því allt helst þetta í hendur við að auka hag heildarinnar.

Ísland mælist hátt í samanburði við aðrar þjóðir við skoðun á félagslegum mælikvörðum. Sá samanburður ætti að gefa okkur vísbendingu um að hér sé vel að málum staðið. Mörg þeirra verkefna sem við skilgreinum af félagslegum toga eru á höndum ríkis og sveitarfélaga. Sú spurning vaknar hvort tækifæri liggi í því að við fjármögnun verkefnanna skilgreini þessir aðilar félagsleg markmið útgáfu, t.d. skuldabréfa, og setji með því sjálfum sér skýr markmið og þurfi þá jafnframt að standa skil á upplýsingum um framvindu þessara mála. Heilbrigðismálin eru okkur ofarlega í huga eftir heimsfaraldur og það er ekki annað að sjá að fjölmörg tækifæri felist í markmiðasetningu þeim tengdum. Heilbrigðisþjónusta, hvort sem hún er einkarekin eða ekki, ætti einnig að nýta tækifæri þess að sækja sér fjármögnun byggða á sjálfbærnimarkmiðum og þannig sýna vilja í verki til að stuðla að bestun í félagslegum framförum. Það er ánægjulegt að sjá í nýjum fjármögnunaramma ríkisins fyrir sjálfbæra fjármögnun að horft sé til grænna, blárra og félagslegra verkefna og er það staðfest af úttekta aðilum að ekki er lengur hægt að horfa aðeins til grænna áhrifa án þess að meta þau félagslegu einnig.

Góð umgjörð húsnæðismála og aðgengi að húsnæði á hagstæðum kjörum uppfyllir grunn þörf fyrir húsaskjól og veitir öryggistilfinningu sem er mikilvæg andlegri og líkamlegri heilsu einstaklinga og fjölskyldna. Byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir um 40% af allri orkunotkun á Evrópusambandssvæðinu, en talið er að um 30% orkunotkunar á Norðurlöndum komi frá húsnæði og byggingariðnaði. Þetta eru háar tölur en hér næst mögulega að binda saman tvö markmið ef vel er staðið að byggingu og fjármögnun húsnæðis sem ýtir undir félagslega sjálfbærni. Hægt er að minnka umhverfisáhrif nýbygginga og bygginga í notkun með réttum hvötum sem mögulega gætu birst í betri lánakjörum til verkefna af þessu tagi. Nýsköpun er svo þriðja víddin í úrlausn þessara viðfangsefna sem getur raskað þróun umhverfismála og félagslegra þátta með jákvæðum hætti og ætti án efa að vera hluti af fjárfestingarmengi fjárfesta til skemmri og lengri tíma.

Þeir aðilar sem eru komnir vel af stað í vegferðinni og skilgreina sig sem áhrifafjárfesta og láta til sín taka í gegnum mat á þeim þrýstingi sem þeir beita félög og útgefendur, munu mögulega leiða samtalið sem aðrir fjárfestar og samfélagið munu njóta góðs af. Helstu áherslur áhrifafjárfesta í heiminum núna snúa einkum að ábyrgð á umhverfinu, loftslagsbreytingum, atvinnuþátttöku og vinnurétti, mannréttindum og síðast en ekki síst viðskiptasiðferði og stjórnarháttum. Skoðun fjárfesta birtist okkur oft í virku eignarhaldi þeirra við beitingu umboðsatkvæða eða að þeirra frumkvæði í umfjöllunum um málefni útgefenda sem þeim finnst rétt að vekja athygli á. Þessi vettvangur er og verður afar mikilvægur fyrir almenning til að mynda sér skoðun á þeim ákvörðunum sem teknar eru af stofnanafjárfestum sem geta verið afdrifaríkar og skuldbindandi fyrir komandi kynslóðir.

Fjárfestar hafa nú öll tól og tækifæri til að láta til sín taka í gegnum fjárfestingar sínar og það verður ekki annað séð en að ef rekstraraðilar fyrirtækja, hið opinbera og fjárfestar taki höndum saman að okkur mun takast að bregðast við þeim aðsteðjandi breytingum sem við stöndum frammi fyrir og nýta fjármagn sem hreyfiafl til góðs.

Jólablað Vísbendingar má finna hér.