SFDR - Hvernig virkar þetta allt? Samantekt frá fundi

24/04/2023

IcelandSIF hélt hádegisfund þann 19. apríl 2023 í gegnum fjarfundabúnað Teams undir yfirskriftinni: SFDR – hvernig virkar þetta allt? Fundurinn var mjög vel sóttur af aðildarfélögum en alls sóttu ríflega 100 manns fundinn. Til umfjöllunar voru málefni tengd fjármálaupplýsingagerðinni (SFDR) sem tekur gildi 1. júní n.k. á Íslandi. Fundurinn stóð yfir í um klukkutíma.

Fyrst flutti Vilhjálmur Þór Svansson, yfirlögfræðingur hjá Creditinfo, erindi sem bar yfirskriftina Almennt um sjálfbærniáhættu og neikvæð áhrif (PAI) samkvæmt SFDR. Vilhjálmur fór fyrst almennt yfir inntak og gildistöku SFDR. Þá fór hann yfir hugtakið sjálfbærniáhætta eins og það er skilgreint í löggjöfinni og hvaða lagaskyldur eru gerðar um birtingu upplýsinga tengt hugtakinu. Í máli Vilhjálms kom fram að sjálfbærniáhætta felur í sér atburð eða ástand á sviði UF eða S sem gæti haft raunveruleg eða hugsanlega verulega neikvæð áhrif á virði fjárfestingar. Vilhjálmur nefndi dæmi um sjálfbærniáhættur. Þá fór hann yfir skilgreiningu á sjálfbærniþáttunum (e. Principal Adverse Impact eða PAI) og hvaða kröfur lögin gera til aðila á fjármálamarkaði um að birta neikvæð áhrif fjárfestingaákvarðana á þá. Að lokum kom Vilhjálmur inn á tvöfalda mikilvægisgreiningu og reglur um nánari framkvæmd laganna sem Seðlabankinn birtir.

Glærur úr erindi Vilhjálms.

Næst flutti erindi Þráinn Halldórsson, gagnasérfræðingur hjá Nordea Asset Management, sem nefndist Frá stefnu yfir í framkvæmd – hvernig má útfæra kröfur vegna sjálfbærniáhættu og neikvæð áhrif (PAI)? Í máli Þráins kom fram að tvöföld mikilvægisgreining sé miðpunkturinn þegar unnið er með sjálfbærniáhættu í skilningi SFDR. Í því felst annars vegar að skoða atvik eða ástand á sviði UFS sem gætu haft veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestinga (e. sustainability risk) og hins vegar neikvæð áhrif fjárfestingarákvarðana á sjálfbærniþætti (PAI). Þráinn fór ítarlega yfir þrjú skref varðandi það hvernig útfæra má og innleiða kröfur SFDR í starfsemi aðila á fjármálamarkaði. Þá fór hann vel yfir dæmi um mat á sjálfbærniáhættu og neikvæð áhrif á sjálfbærniþætti hjá útgefanda, hvernig slík möt birtast hjá erlendum gagnaveitum. Einnig, hvernig fjármálafyrirtæki geta nýtt sér slíkar greiningar við mat á sjálfbærniáhættu við fjárfestingar. Að lokum fór hann yfir kröfur varðandi birtingu sjálfbærniupplýsinganna.   

Glærur úr erindi Þráins.

Að lokum fluttu erindi Kristbjörg M. Kristinsdóttir og Per M. Henje hjá Stefni en erindi þeirra bar heitið Katla Fund Global Equity – Reynslusaga af innleiðingu SFDR í 8. gr. sjóð. Þau Kristbjörg og Per kynntu sjóðinn Kötlu sem hefur verið samþykktur sem 8. gr. sjóður hjá fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg. Þá fóru þau yfir hvernig sjálfbærniáhætta og PAI þættirnir horfa við rekstrarfélaginu annars vegar og sjóðnum hins vegar. Þau nefndu fjögur skref við innleiðingu krafna SFDR í starfsemi rekstrarfélagsins. Næst fóru þau yfir hvernig unni er eftir SFDR við rekstur sjóðsins Kötlu, þ. á m. hvernig erlendar gagnaveitur eru nýttar í greiningar og skýrsluskil.

Glærur úr erindi Kristbjargar og Per.

Að lokum sköpuðust umræður og spurningar enda málefni sem brennur á mörgum fjármálafyrirtækjum í dag, þegar styttist í gildistöku laganna. Hér má nálgast upptöku af viðburðinum: