NordicSIF 2022 glærur og myndir frá viðburðinum.

24/06/2022

Við þökkum félagsmönnum IcelandSIF fyrir góða þátttöku í NordicSIF ráðstefnunni sem stóð yfir dagana 15. og 16. júní í Hörpu. Uppselt var á ráðstefnuna en 165 gestir sóttu ráðstefnuna á staðnum og um helmingur erlendir félagsaðilar og fyrirlesarar. Einnig var sent út streymi frá ráðstefnunni og var því deilt á heimasíðu IcelandSIF, mbl.is og vb.is og þegar mest lét var sami fjöldi að fylgjast með í gegnum netið.

Að þessu sinni fékk IcelandSIF tækifæri til að bjóða félagsmönnum annarra SIF félaga á Norðurlöndunum velkomna og mættu aðilar frá DanSIF, SweSIF, NorSIF og FinSIF. En löndin fimm [Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Finnland og Íslands] skiptast á að halda ráðstefnuna og í júní á næsta ári mun Danmörk bjóða félagsmönnum heim.

Að þessu sinni var umfjöllunarefnið Hafið og það skoðað frá öllum sjónarhornum. Fyrst bauð stjórnarformaður IcelandSIF Kristbjörg M. Kristinsdóttir gesti velkomna og Frú Eliza Jean Reid forsetafrú Íslands opnaði í kjölfarið ráðstefnuna. Í erindi sínu kom Eliza inná mikilvægi hafsins í sögu Íslands, sem matarkistu, hvernig hafið hefur fléttast inn í örlög og afdrif þjóðarinnar og mótað á margan hátt. Eliza gaf tóninn fyrir næstu daga og kom á einn eða annan hátt inná í sínu erindi allt sem framundan var. Elín María Björnsdóttir, mannauðsstjóri hjá Controlant, og Bergur Ebbi Benediktsson tóku svo við fundarstjórn og fléttuðu saman dagskránna af mikilli innsýn,  þekkingu, fagmennsku og léttleika.

Næst tóku við vísindakonurnar þær Dr. Anna Hulda Ólafsdóttir og Dr. Hrönn Egilsdóttir, sem fóru yfir hver staða hafsins er útfrá sjónum vísindanna með tilliti til loftlags, lífríkis og súrnun sjávar. Að lokum komu saman í pallborðsumræðum Gunnar Jakobsson frá Seðlabanka Íslands, Victoria Lindén sérfræðingur í sjálfbærni hjá Storebrand ásamt Dr. Önnu Huldu Ólafsdóttur. Þau fóru yfir það hvernig gögn geta verið nýtt til ákvörðunartöku, hver gæði gagna eru, þróun á öflun gagna síðustu ár og hvernig gögn geta komið að gagni í baráttunni við loftslagsbreytingar. Í myndbandsinnslagi fór Dr. Snjólaug Árnadóttir frá lögfræðideild Háskólans í Reykjavík yfir mikilvægi lögfræði með tilliti til loftlagsbreytinga og hvatti okkur öll til að hafa þau mál í forgrunni.

Climate change, adaption and ocean around Iceland

The Ocean around Iceland, Biodiversity and Humans

Að loknu kaffihléi fóru bæði Isabelle Julliard Tompsen frá DNB og Paul Malpas frá Nordea yfir fjárfestingaferlið með tilliti til sjálfbærni og hvernig hægt er að hafa áhrif með fjárfestingum. Paul fór yfir sviðið með breiðri skírskotun en Isabelle fór fyrir með dæmum um fjárfestingar. Að lokum tóku þau bæði þátt í pallborðsumræðum ásamt fundarstjórum og svöruðu spurning úr sal og miðluðu af sinni reynslu.

Investing in the ocean

Investing in the Blue Economy for Sustainable Oceans

Eftir hádegismat tók Ken Mark, höfundur dæmisagna úr viðskiptalífinu, við stjórn, en hann hafði í samstarfi við Þröst Ólaf Sigurjónsson, prófessor við Háskóla Íslands, sett saman dæmi úr innlendu viðskiptalífi bæði undir yfirskrift umhverfis, félagslegra og stjórnskipulegra þátta. Þátttakendur deildust svo niður á vinnustofur þar sem farið var yfir tvö dæmi í hverri stofu og sköpuðust líflegar umræður.

Að vinnustofunum loknum tók Þór Sigfússon frá Sjávarklasanum við og fór yfir nýsköpunarumhverfið tengt sjávarútvegi á Íslandi og nýtingu sjávarafurða. Í myndbandsinnslagi var talað við Kjartan Ólafsson hjá Transition Labs og Kristinn Árna Lár Hróbjartsson hjá Running Tide á Íslandi þar sem þeir fóru yfir sínar hugmyndir á sviði mótvægis aðgerða gegn loftlagsbreytingum.

Blue innovation – what does Iceland have to offer

Til að loka fyrsta deginum fóru Anna Kristín Pálsdóttir og Þorsteinn Kári Jónsson hjá Marel yfir sögu fyrirtækisins og hvernig það stuðlar að sjálfbærni með hátækni.

Að lokum drógu fundarstjórarnir saman daginn og tóku ráðstefnugestir þátt í kvöldverði í Gamla Bíó þar sem borinn var á borð fiskur eins og hann gerist bestur og Ari Eldjárn sá til þess að allir kvöddust brosandi.

Síðari dagur ráðstefnunnar hófst á því að Ken Mark fór yfir helstu niðurstöður úr vinnustofum sem höfðu farið fram daginn áður. Næst tók við myndbandsinnslag frá Svefneyjum þar sem talað var við Gunnar Ólafsson stofnanda Djúpsins, sem fór yfir lækningamátt þörunga og þörungaiðnað, sem er að ryðja sér til rúms á Íslandi.

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Northwestern University í Bandaríkjunum, fór í erindi sínu yfir mikilvægi sjálfbærni og hvernig hagkerfin þurfa að líta út til að stuðla að bættri heimsmynd þar sem lögð er áhersla á verndun jarðar. Í kjölfar hennar erindis tók við Dr. Kim Schumacher og fór yfir grænþvott og mikilvægi djúpstæðrar þekkingar þegar kemur að sjálfbærnimálum.  Því næst fylgdi erindi frá Gualtiero Jaeger, ráðgjafi hjá McKinsey og Company, en hann hefur doktorspróf frá MIT með sérhæfingu í lífríki sjávar og fór í erindi sínu bæði yfir núvarandi stöðu sjávar og eins hvernig hægt er að bregðast við. Að lokum fór Melissa Ferraz frá BlackRock yfir nýtingu gagna með tilliti til sjálfbærni og mikilvægi gagna í baráttunni við loftlagsbreytingar. Hildur Hauksdóttir sjálfbærnifulltrúi hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi fór yfir orkuskipti innan fiskveiða í myndbandsinnslagi og hver tækifæri og hindranir eru í því samhengi.

Rethinking Economics: Investments for Wellbeing

Að lokum dróg fyrrum forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson efni ráðstefnunnar saman á sinn einstaka hátt og skildi við ráðstefnugesti með hvatninguna um að gera sitt í til að leggja að mörkum í baráttunni við loftlagsbreytingar.

Við hjá Stjórn IcelandSIF erum yfir okkur þakklát öllum sem lögðu sitt af mörkum við að gera NordicSIF 2022 að þeim viðburði sem ráðstefnan var. Án framlags fyrirlesara innlendra og erlendra, fundarstjórana okkar, allra sem komu að umgjörðinni og síðast en ekki allra félagsmanna SIF samtakanna nær og fjær þá hefði þetta ekki tekist. NordicSIF 2022 er mikilvægt innlegg í umræðu og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar en ekki síst liður í aukinni tengslamyndun og hvatning til að gera enn betur þegar kemur að ábyrgum fjárfestingum.  

Bestu þakkir fyrir okkur!  

Stjórn IcelandSIF