Fjölsóttur fundur um stöðu orkumála og orkuskipta

28/04/2022

IcelandSIF hélt morgunfund (fjarfund) þann 28. apríl 2022 um orkumál, sem segja má að séu í brennidepli um þessar mundir. Umfjöllunarefnið var m.a. orkuskortur og áhrif af stríðsátökum í Austur-Evrópu á orkuskiptin og þróun yfir í sjálfbæra orkugjafa. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum IcelandSIF og 50 – 60 manns tengdust inn á fundinn.

Erindi fluttu Sigurður Ingi Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs hjá Orkustofnun og Þórdís Anna Oddsdóttir forstöðumaður fjárstýringar hjá Landsvirkjun. Fundarstjóri var Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo og stjórnarmeðlimur í IcelandSIF.

Sigurður Ingi Friðleifsson fór í erindi sínu yfir breytta heimsmynd í orku-og umhverfismálum. Sigurður fór yfir það að um 80% af orkuþörf heimsins er ennþá mætt með ósjálfbæru jarðefnaeldsneyti, en brennsla á jarðefnaeldsneyti mun ekki ganga upp horft til framtíðar, með tilliti til loftslagsstefnu ríkja heims. Önnur breyting er jafnframt sú að grænir orkugjafar eru að verða ódýrasti kosturinn, m.a. vegna ívilnana og styrkja. Það leiðir til þess að framtíðarkynslóðir munu búa við ódýrustu raforku sögunnar. Sigurður fjallaði einnig um að orkuöryggi er margfalt meiri áhrifaþáttur núna en verið hefur og þær áherslur munu leiða til þess að þjóðir heims munu færa orkuframleiðsu nær sér og það mun leiða til hraðri þróun í endurnýjanlegum orkugjöfum en við höfum áður séð. Sigurður fór jafnframt yfir mikilvægi orkuskipta, þann samfélagsávinning sem fylgir orkuskiptum og fór yfir nokkur dæmi um það hvernig fyrirtæki eru að vinna að orkuskiptum í sinni starfssemi.

Þórdís Anna Oddsdóttir fór í erindi sínu yfir stefnu Landsvirkjunar og áherslur fyrirtækisins í orkumálum og orkuskiptum. Hún fjallaði jafnframt um þá stöðu sem kom upp þegar Landsvirkjun þurfti tímabundið að skerða orku til notenda. Hún fór yfir lykiltölur í rekstri Landsvirkjunar og stefnu, framtíðarsýn og hlutverk, en sjálfbærni er í lykilhlutverki í stefnu fyrirtækisins. Landsvirkjun stefnir að kolefnishlutleysi árið 2025 og stefnir að því að vera kolefnisneikvæð eftir það. Fyrirtækið er í víðtæku samstarfi um sjálfbærni við innlend fyrirtæki, til að markmiðin náist. Þórdís fjallaði um orkuskipti í samgöngum á landi og sjó og fór jafnframt yfir þróunarverkefni Landsvirkjunar og Icelandair um orkuskipti í flugi. Hún fjallaði jafnframt um það sem framundan er í orkuöflun, hámörkun á nýtingu auðlinda og þörf fyrir nýjar virkjanir til að mæta orkuþörf. Að lokum fór Þórdís yfir græna og sjálfbærnitengda fjármögnun Landsvirkjunar, en öll fjármögnun fyrirtækisins frá árinu 2018 er græn eða sjálfbærnitengd.

Að loknum framsöguerindum var opnað fyrir spurningar.

Hér má nálgast erindin af fundinum:

Erindi Sigurðar Inga

Erindi Þórdísar Önnu