Samantekt um starfsemi IcelandSIF árið 2022 og horfur fyrir árið 2023

29/03/2023

Stjórn IcelandSIF tók nýverið saman yfirlit yfir starfsemina á árinu 2022 og horfur fyrir árið 2023 í samtali við NordSIP í tilefni af samantekt þeirra um framtíðarhorfur SIF samtaka á Norðurlöndunum.

Hér fyrir neðan fylgir þýðing á viðtali NordSIP við stjórn IcelandSIF:

Ef við lítum yfir árið 2022, hvað var það markverðasta í starfi félagsins að mati IcelandSIF?

Það sem stóð upp úr á árinu 2022 var ráðstefnan NordicSIF sem haldin var í Reykjavík dagana 15. og 16. júní . Markmiðið með NordicSIF er að auka meðvitund um og þekkingu á mikilvægi sjálfbærni þegar kemur að fjárfestingarákvörðunum til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Norrænir sérfræðingar á fjármálamarkaði sóttu ráðstefnuna og ráðstefnan var umræðuvettvangur fyrir fólk í háskólasamfélaginu, vísindamenn og fólk sem starfar við fjárfestingar eða kemur að þeim með einhverjum hætti. Þetta var frábært tækifæri til að fara yfir stöðuna. Þarna var mikið rætt um loftslagsbreytingar og mikilvægi þess að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika, ekki síst með tilliti til áhrif á lífríki hafsins. Fjöldi erlendra og innlendra fyrirlesara fluttu erindi um áhrif loftlagsbreytinga, með áherslu á áreiðanleika og öryggi gagna þegar kemur að því að meta umhverfisáhrif fyrirtækja

Þar sem ráðstefnan var haldin á Íslandi lá beinast við að meginumræðuefnið væri hafið og lífríki sjávar. Rætt var um hvernig nauðsyn á aðlögun hefur í gegnum aldirnar gjarnan leitt til nýsköpunar og hvar tækifærin liggja í dag. Áhersla var lögð á hvernig Ísland hefur verið í fremstu röð þegar kemur að grænni orku, sjálfbærum fiskveiðum og nýsköpun í sjávarútvegi. Það var sannarlega hvetjandi að sjá allt fagfólkið ræða vísindalegar niðurstöður og rannsóknir, hugmyndir, skoðanir og deila þekkingu sinni. Enginn yfirgaf ráðstefnuna ósnortinn.

Síðasta ár var nokkuð viðburðaríkt hjá IcelandSIF en félagið hélt fjölda annarra viðburða. Fyrsti viðburður ársins 2022 var haldinn í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fjallaði um sjálfbæran fjármögnunarramma íslenskra stjórnvalda sem hlaut dökkgræna einkunn hjá vottunaraðilanum CICERO. Í kjölfarið héldum við viðburð með áherslu á afskipti hluthafa með tilliti til UFS-þátta. Dr. Helga Kristín Auðunsdóttir kynnti doktorsritgerð sína sem fjallar um hvernig vogunarsjóðir hafa notað UFS-viðmið til að styðja við endurskipulagningu fyrirtækja með það að markmiði að mæta ávöxtunarmarkmiðum. Að erindinu loknu tóku við líflegar umræður, m.a. með þátttöku fólks sem fer fyrir vísisjóðum. Þriðji atburður ársins fjallaði um orku, orkuskort og áhrif yfirstandandi stríðs í Úkraínu og þróun í átt að sjálfbærari orku. Orkustofnun og Landsvirkjun tóku þátt í fundinum og gat starfsfólk þeirra veitt ítarlega innsýn í stöðuna í heiminum þegar kemur að orku og umhverfi, mikilvægi orkuöryggis og kolefnishlutleysis.

Að loknu sumarfríi stóð IcelandSIF fyrir viðburði þar sem lögð var áhersla á UFS-þætti þegar kemur að mælingaraðferðum. Á fundinum ræddi dr. Florian Berg frá Massachusetts Institute of Technology ítarlega um ástæður þess að einkunnir eru mismunandi þegar kemur að UFS-mötum auk þess sem fjárhagsleg og efnahagsleg áhrif af einkunnum geta verið mismunandi.

Í nóvember stóð IcelandSIF síðan fyrir tveimur viðburðum. Sá fyrri var um fyrirkomulag aðalfunda og snerist um rannsóknir dr. Þrastar Ólaf Sigurjónssonar. Hann hefur skoðað hvort fyrirkomulag aðalfunda hafi breyst í kjölfar Covid-19, samhliða hröðum framförum í hugbúnaðarþróun sem gerir fundahald yfir netið hentugan valkost. Síðari nóvemberviðburðurinn fjallaði um grænþvott en það er efni sem hefur verið ofarlega á baugi undanfarið. Hugo Gallgaher sem er framkvæmdastjóri og yfirmaður stefnumótunar hjá EuroSIF og Eric Pedersen yfirmaður ábyrgra fjárfestinga hjá Nordea og varaformaður DanSIF tóku þátt ásamt innlendum sérfræðingum í sjálfbærni. Lokaviðburður ársins 2022 var í desember og fjallaði um fjölbreytileika á innlendum vinnumarkaði. Dr. Gylfi Magnússon hefur í sínum rannsóknum skoðað vinnumarkaðinn með tilliti til fjölbreytileika, hvort að sá fjölbreytileiki endurspeglist á stjórnarstigi og hvort hugsanlega sé litið framhjá ávinningi af honum. Þóra Christiansen aðjunkt við viðskiptadeild Háskóla Íslands fjallaði um jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu með tilliti til kyns, uppruna, kynþáttar og samspil þessara þátta. Dr. Gunnar Gunnarsson frá CreditInfo fylgdi á eftir með kynningu á tölfræðilegum upplýsingum um vinnumarkaðinn og hvernig þróunin hefur verið. Hann fjallaði um vísbendingar um hver þróunin gæti orðið til framtíðar og hversu langan tíma það mun taka að ná jafnrétti kynjanna þegar litið er til hvernig þróunin hefur verið.

Ef við drögum saman það helsta fyrir árið 2022 þá hefur verið gaman að geta haldið aftur staðfundi í bland við fjarfundi og meta hvort formið hentar betur út frá efnistökum. Það hefur verið gaman að sjá hversu margir meðlimir IcelandSIF hafa tekið þátt í hverjum viðburði og hversu áhugasamt fagfólk hefur verið að taka þátt í viðburðum og verja tíma og miðla þekkingu með kynningum, með þátttöku í pallborðsumræðum og með stuðningi við IcelandSIF varðandi aðstöðu til fundahalda. Við finnum að starfið innan IcelandSIF er vel metið meðal meðlima. Við finnum að áhugi á því að gerast formlegir meðlimir samtakanna og taka þátt í vinnuhópum hefur aukist töluvert. NordicSIF viðburðurinn sem haldinn var á Íslandi í júní á síðasta ári vakti einnig athygli á samtökunum og jákvæð fjölmiðlaumfjöllun um ráðstefnuna gerði það að verkum að efni hennar náði eyrum fleiri en annars hefði verið.

Ef við lítum til ársins 2023, hvaða atburðir eru helst á döfunni hjá IcelandSIF? Er eitthvað öðru fremur sem þið horfið til?

IcelandSIF hefur þegar sett saman drög að dagskrá ársins og verður fyrsti viðburðurinn var um orkumál í evrópsku samhengi og næstur er viðborður um tilnefninganefndir sem eru í stöðugri þróun á Íslandi. Auk þess sem er á dagskránni með vorinu viðburður í samstarfi við Seðlabanka Íslands undir yfirskriftinni „Græni fjármáladagurinn” og mun fjalla um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar út frá mismunandi sjónarhornum. Fræðsluhópur IcelandSIF mun síðan halda utan um viðburð sem mun taka á nýlegum umræðum um þróun UFS í heiminum þar sem hugmyndafræðin er skoðuðu en IcelandSIF vill vera þátttakandi í umræðunni frekar en að hunsa gagnrýnendur ábyrgra fjárfestinga. Lögfræðihópur IcelandSIF er að undirbúa viðburð sem tengist flokkunarkerfi Evrópusambandsins (e. EU Taxonomy). Auk þess höfum við orðið vör við áhuga frá tryggingafélögum varðandi viðburð um loftlagsbreytingar og hvernig þær geta verið áhrifaþáttur sem tryggingafélög þurfa að horfa til. Auk þess verða orkuumræður einnig á dagskrá. Við hlökkum til að taka á móti nýjum meðlimum IcelandSIF með fjölbreyttri dagskrá ársins sem er nýhafið. NordicSIF verður haldið í Danmörku í júní í ár og erum við mjög spennt fyrir þeim viðburði auk annarra viðburða á vegum norrænu SIF félagana sem við höfum tækifæri til að taka þátt í.

Hverjar eru helstu áskoranir þegar kemur að sjálfbærum fjárfestingum og hverjar eru helstu áhyggjurnar þegar kemur að árinu 2023?

Eins og fram hefur komið hér að ofan erum við að hlusta á félagsmenn IcelandSIF og hvað er þeim efst í huga um þessar mundir og við viljum gera okkar besta til að skipuleggja viðburði sem taka á málefnum líðandi stundar og mæta þörfum aðildafélaganna. Um þessar mundir er það flokkunarkerfi ESB og önnur löggjöf sem innleidd er á Íslandi sem vekur áhuga. IcelandSIF vill vera virkur þátttakandi í umræðu um UFS og auka vitund um ábyrgar fjárfestingar. Ásamt því að skoða loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á tryggingafélög auk stöðugrar umræðu um orkumál.

Ef það væri ein ósk sem þið mættuð biðja um árið 2023, út frá sjónarhóli sjálfbærra fjárfestinga, hver væri hún?

Eins og stríðið í Úkraínu hefur sýnt er ástandið á evrópskum orkumarkaði, og hversu háð Evrópa er rússneskri olíu og gasi, eitthvað sem ekki verður litið framhjá. Það er því mjög mikilvægt að auka verulega fjárfestingu í sjálfbærri orku og frekari nýsköpun í orkumálum. Eins og sagan hefur kennt okkur þá elur nauðsyn oft á tíðum af sér nýsköpun. Vegna loftlagsbreytinga og ógna sem steðja að líffræðilegri fjölbreytni þurfum við nýsköpun og fjármagn til að skapa bjartari framtíð.