Sjálfbærni fjármálafyrirtækja - Upptaka og samantekt

13/12/2023

Haldinn var hádegisfundur á vegum IcelandSIF þann 11. desember 2023 í gegnum fjarfundarbúnað Teams undir yfirskriftinni Sjálfbærni fjármálafyrirtækja. Fundurinn var vel sóttur en alls sóttu um 90 manns fundinn. Fundargestir fengu fræðslu um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja með áherslu á 8. gr. flokkunarreglugerðar ESB (e. EU taxonomy).

Fyrstur tók til máls Jonathan Krakow, stjórnandi sjálfbærniteymis Deloitte í Noregi. Jonathan fjallaði með almennum hætti um regluverkið og þær kröfur sem það hefur í för með sér. Í erindinu sagði Jonathan frá stöðu fjármálafyrirtækja innan flokkunarkerfisins og stiklaði á stóru yfir helstu lykilárangursmælikvarða sem þarf að horfa til, þ.e. GAR, GIR og GUR. Loks sagði Jonathan frá áhrifum flokkunarkerfisins á fjármálageirann og næstu skrefum regluverksins.

Glærur úr erindi Jonathan má nálgast hér.

Næst flutti Shalini Sewradj, sérfræðingur í sjálfbærni hjá hollenska bankanum ABN Amro, erindi um reynslu bankans af flokkunarkerfinu. Erindi hennar veitti fundargestum gagnlega innsýn inn í innleiðingarferlið. Shalini sagði nánar frá lykilárangursmælikvörðunum og hvernig skuli meta hversu vel atvinnustarfsemi, sem bankinn fjármagnar, fellur að flokkunarkerfinu.

Glærur úr erindi Shalini má nálgast hér.

Þá sagði Ben Leblique, sérfræðingur í sjálfbærniregluverki ESB hjá UN PRI, frá niðurstöðum rannsókna UN PRI á notkun flokkunarkerfisins. Ben fjallaði einnig um tól sem koma að gagni við beitingu regluverksins og um fyrirhugaða vinnu á vegum samráðsvettvangs um sjálfbær fjármál (e. EU Platform on Sustainable Finance).

Glærur úr erindi Ben má nálgast hér.

Loks hélt Halldór I. Pálsson, umsjónarmaður með Ársreikningaskrá, erindi um upplýsingagjöfina út frá sjónarhóli eftirlitsaðilans. Halldór fjallaði um innleiðingarferli sjálfbærniregluverksins og áskoranir við innleiðingu þess í íslenskan rétt. Halldór skýrði frá því að fyrirhugað sé að veita tiltekið svigrúm við beitingu regluverksins í eitt ár, að því er varðar tilvik þar sem viðeigandi og áreiðanleg gögn eru ófáanleg.

Glærur úr erindi Halldórs má nálgast hér.

Að neðan má finna upptöku af viðburðinum: