Óbein umhverfisáhrif fjármálafyrirtækja

9/09/2021

IcelandSIF hélt fjarfund þann 8. september 2021 í samstarfi við Guidehouse og Morgan Stanley, um óbein umhverfisáhrif fjármálafyrirtækja í gegnum fjárfestingar og útlán. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum IcelandSIF og hátt í 100 manns tengdust inn á fundinn.

Undanfarið ár hafa margir af stærstu bönkum heims hafið að birta upplýsingar um áætlaða losun gróðurhúsalofttegunda vegna útlána og fjárfestingastarfsemi sinnar. Á fundinum var fjallað um þá undirliggjandi aðferðafræði til grundvallar slíkum útreikningum og hagnýtingu þessara upplýsinga.

Fyrirlesarar á fundinum voru Cara Merusi frá Guidehouse, sem hefur verkefnastýrt þróun leiðbeininga PCAF (Partnership for carbon accounting financials), Clark Anderson frá Morgan Stanley (Climate-Change Risk Management), Peter Kutzen frá Morgan Stanley (Climate Change Risk Management and Country Risk) og Jamie Martin frá Morgan Stanley (Global Sustainable Finance) sem fjölluðu um nálgun fyrirtækisins í málaflokknum og hagnýtingu PCAF innanhúss. Fundarstjóri var Reynir Smári Atlason, sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum og stjórnarmeðlimur í IcelandSIF.

Cara Merusi fór yfir PCAF, sem er alþjóðlegt samstarf um þróun aðferðafræði við útreikninga birtingu upplýsinga um áætlaða losun vegna útlánasafns og fjárfestinga. PCAF hefur starfað frá árinu 2015 og þróað aðferðafræðina og leiðbeiningarnar síðan þá. Innleiddir hafa verið staðlar sem auka gagnsæi og samræmingu í birtingu upplýsinga um óbein umhverfisáhrif. Cara fór yfir aðferðarfræði og nálgun PCAF og leiðbeiningar um innleiðingu á stöðlum. Yfir 145 fjármálafyrirtæki í 44 löndum eru nú hluti af PCAF samstarfinu, þ.á.m. stór fjármálafyrirtæki á borð við Morgan Stanley, Bank of America, HSBC, Deutsche Bank og Nordea.

Clark Anderson, Peter Kutzen og Jamie Martin fóru yfir áherslur Morgan Stanley, innleiðingarferli PCAF hjá fyrirtækinu, og ástæður þess að Morgan Stanley ákvað að taka þátt í PCAF samstarfinu. Þeir fóru jafnframt yfir áherslur Morgan Stanley þegar kemur að kolefnishlutleysi og þau markmið sem fyrirtækið hefur sett sér. Þá fóru þeir yfir aðferðarfræði og útreikning/mat á losun vegna útlána og fjárfestingastarfsemi bankans.

Að loknum framsöguerindum var opnað fyrir spurningar.

Hér má nálgast erindin af ráðstefnunni:

Kynning Cara Merusi

Kynning Morgan Stanley