Ráðstefna IcelandSIF um virkt eignarhald á Íslandi

11/03/2020

Þann 4. mars síðastliðinn var haldin ráðstefna á vegum IcelandSIF á Grand Hótel um virkt eignarhald á Íslandi. Á dagskrá voru fjögur erindi og var fundurinn einkar vel sóttur. Ráðstefnunni stýrði Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

IcelandSIF-200304-004.jpg

Ársæll Valfells, dósent við Háskóla Íslands, hóf ráðstefnuna á yfirferð um efnahagslega tilvist fyrirtækja, umboð og ytri kostnað. Hann talaði um að tilurð fyrirtækja byggist á eignarrétti og viðskiptakostnaði þar sem hámörkun hagnaðar væri leiðarljós í að leysa viðskiptakostnað. Hann skilgreindi tvenns konar viðskiptakostnað, svokallaðan þekktan Ex-ante og óþekktan Ex-post viðskiptakostnað. Tvær aðferðir séu ríkjandi þegar kemur að því að fá fyrirtæki til að innbyrða ytri viðskiptakostnað: lög og reglugerðir annars vegar og ákvarðanir hluthafa af eigin frumkvæði hins vegar. Einnig fjallaði Ársæll um skilvirkni og umboðsvanda og fjóra megin skóla byggða á kenningum Milton Friedmans, Azar, Rotenberg & Gordon - Mayer, Schleifer & Summers og Hart.

IcelandSIF-200304-012.jpg

Hann lokaði erindinu síðan með að leggja áherslu á að huga skyldi að forminu, þ.e. eignarrétti, lögum, reglugerðum og hlutverkaskipan til að tryggja innihald. Raða ætti saman framleiðsluþáttum (eignum) með sem skilvirkustum hætti til að lækka viðskiptakostnað í markaðshagkerfinu - án þess að missa sjónar af þeim æðri samfélagslega tilgangi fyrirtækja - sem er að skapa velferð í samfélaginu.

Þá tók Helga Hlín Hákonardóttir, lögmaður og meðeigandi hjá Strategía, við með umfjöllun um hlutverk virkra eigenda og eigendastefnur. Mikill árangur hefði náðst á síðustu árum, flest fyrirtæki á Íslandi hefðu nú sett sér eigendastefnu þó alltaf mætti gera betur. Helga fór yfir mikilvægi eigendastefnu út frá þríhjóli stjórnarhátta og þríhjóli réttarheimilda. Í þríhjóli stjórnarhátta felst Skýrt umboð og hlutverk einstakra stjórnareininga skv. lögum, reglum, samþykktum, samningum og góðum stjórnarháttum. Ábyrgð, framkvæmd og eftirlit eru þar af leiðandi skýr enda séu innleiðing, eftirfylgni og eftirliti virk í framkvæmd. Ákvarðanataka stjórnar og stjórnenda tekur síðan mið af hlutverki, umboði og ábyrgð – og er þar með áreiðanlegri en ella.

IcelandSIF-200304-017.jpg

Í þríhjóli réttarheimildar felst: Lagarammi - lög, reglugerðir og stjórnvaldsfyrirmæli, Eigendur – samþykktir, sameignarfélagssamningur og ákvarðanir á eigendafundum. Stjórn - starfsreglur stjórnar, starfslýsing framkvæmdastjóra, stefnumörkun og innri reglur.

Einnig fjallaði Helga um grunnheimildir og innihald eigendastefna, mikilvægi þess að koma að stefnumarkandi ákvörðunum eins og starfskjarastefnum, og stjórnarhætti fyrirtækja í opinberri eigu.

Að erindum Ársæls og Helgu loknum voru pallborðsumræður með þátttöku þeirra ásamt Heiðari Guðjónssyni, forstjóra SÝN og Vigdísi Hrafnkelsdóttur, sérfræðingi í eignastýringu hjá Landsbankanum.

IcelandSIF-200304-022.jpg

Seinni hluta ráðstefnurnar hóf Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignarstýringar hjá Gildi lífeyrissjóði. Hann fjallaði um aukin umsvif stofnanafjárfesta og hvernig einkafjárfestar séu í auknum mæli hluti af stofnanafjárfestum í gegnum óvirka hlutabréfasjóði. Hann fór yfir þróun á eignarhaldi þriggja stærstu lífeyrissjóðanna í innlendum skráðum hlutabréfum ásamt því að bera saman eignarhald stofnannafjárfesta á íslenska markaðnum. Davíð sagði frá áherslu Gildis á virkt eignarhald og eftirfylgni sem hluthafi á innlendum hlutabréfamarkaði. Bar einnig saman ólíka nálgun og ólíkar aðferðir, hvað varðar ábyrgar fjárfestingar, gagnvart innlendum og erlendum hlutabréfum. Því næst fór hann yfir hluthafastefnu Gildis, og tók nokkur dæmi um áherslur sjóðsins því tengt, t.d. varðandi gagnsæi og upplýsingagjöf, starfskjarastefnur, heimildir til kaupa á eigin bréfum og tilnefninganefndir. Davíð endaði sína yfirferð á praktísku dæmi um eftirfylgni hluthafastefnu sjóðsins og fjallaði um aðdragandann og hagsmunamatið sem lá til grundvallar ákvörðun Gildis um sölu á öllum hlut sjóðsins í HB Granda (nú Brim).

IcelandSIF-200304-033.jpg

Kristbjörg Kristinsdóttir rekstrarstjóri hjá Stefni fjallaði síðan um hlutverk og umboðsskyldu Stefnis við að stýra fjármunum í eigum viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Lýsti hún því hvernig Stefnir er virkur eigandi á hlutabréfamarkaði og í gegnum samtöl við fyrirtæki sem fjárfest er í, stuðli að bestu framkvæmd á markaði. Stefnir tekur virkan þátt í atkvæðagreiðslum á hluthafafundum með því að mynda sér skoðun, leggja vinnu í undirbúning og faglega nálgun við ákvörðunartöku. Slík vinnubrögð stuðli að trausti á rekstrarfélaginu og markaðinum með vel ígrunduðum ákvörðunum. Mikilvægt sé einnig að hrósa því sem vel sé gert og leggja áherslu á gagnsæi í upplýsingagjöf sem ýtir enn frekar undir traust.

IcelandSIF-200304-034.jpg

Að erindum Davíðs og Kristbjargar loknum voru pallborðsumræður með þátttöku þeirra ásamt Soffíu Gunnarsdóttur, frá Birtu lífeyrissjóð og Mogens G. Mogenssen frá Íslandssjóðum.

IcelandSIF-200304-044.jpg

Hér má nálgast erindin af ráðstefnunni:

Erindi Ársæls

Erindi Davíðs

Erindi Helgu

Erindi Kristbjargar