Grænþvottur: Er allt vænt sem vel er grænt? - Myndir frá viðburði

23/11/2022

IcelandSIF hélt morgunfund í Veröld – húsi Vigdísar, þann 21. nóvember 2022 um grænþvott. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum IcelandSIF, alls sóttu ríflega 100 manns viðburðinn, en fundurinn var einnig í streymi. Hér fyrir neðan er að finna upptökur af erindum fundarins ásamt ljósmyndum.

Erindi fluttu Hugo Gallagher, aðstoðarframkvæmdastjóri EuroSIF og forstöðumaður stefnumótunar og ráðgjafar og Eric Pedersen, yfirmaður sjálfbærra fjárfestinga hjá Nordea og varaformaður DanSIF. Að loknum erindum þeirra fóru fram pallborðsumræður og þar tóku þátt Aðalheiður Snæbjarnardóttir sjálfbærnistjóri Landsbankans, Gunnar S. Magnússon yfirmaður sjálfbærni og loftslagsmála hjá Deloitte og Tómas N. Möller yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna.

Fundarstjóri var Anna Þórdís Rafnsdóttir verkefnastjóri sjálfbærni hjá Kviku og varaformaður stjórnar IcelandSIF og Eva Margrét Ævarsdóttir lögmaður hjá LEX og fulltrúi í lögfræðihópi IcelandSIF stýrði pallborðsumræðum.

Hugo Gallagher fór í erindi sínu yfir grænþvott með hliðsjón af þeim reglugerðum sem innleiddar hafa verið í Evrópu og fór yfir heildarlöggjöfina og EU Sustainable Finance Framework. Hann fjallaði um mikilvægi þess að skilgreina betur hugtakið grænþvott og taldi gildandi regluverk vera óljóst og ekki skilgreina nægjanlega vel hvað fellur undir grænþvott. Því væri mikilvægt að gefa fyrirtækjum og fjármálamarkaðinum í heild tækifæri til að aðlagast breytingum og nýju regluverki um m.a. ófjárhagslega upplýsingagjöf. Heildarlöggjöf í Evrópu um sjálfbærni hefur verið í mikilli þróun og verður það áfram á næstu árum og því gæti nokkur tími gæti liðið þar til hægt verður að skilgreina grænþvottar­hugtakið á skynsaman hátt og gefa skýrari leiðbeiningar og mynda ramma um hugtakið.

Eric Pedersen fjallaði í sínu erindi um grænþvottarhugtakið út frá sjónarhorni fjárfesta og með hvaða hætti fjárfestar geta metið eignasöfn sín út frá ófjárhagslegum upplýsingum frá fyrirtækjum. Með tilkomu SFDR reglugerðar og flokkunar á fjárfestingum, m.a. út frá Article 6, 8 og 9 er hætta á ákveðinni einföldun í mati á fjárfestingum og mikilvægt er að greina umhverfisáhrif fjárfestinga nánar. Fjárfestar hafa farið ólíkar leiðir í mati fjárfestinga og samræming í slíku mati mikilvæg.

Í umræðum í pallborði voru m.a. ræddar þær áskoranir sem fylgja ábyrgum fjárfestingum og þá auknu athygli sem grænþvottur hefur fengið á undanförnum misserum. Þá voru einnig umræður um þær sjálfbærniupplýsingar sem fyrirtæki veita, en fyrirtæki hafa haft mikið svigrúm til birtingu slíkra upplýsinga og hafa jafnframt haft val um það hvort óháður aðili yfirfari og staðfesti slíkar upplýsingar. Rætt var um Evrópureglugerð um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (CSRD) sem mun taka gildi í Evrópu um þar næstu áramót en markmið þeirrar reglugerðar er að auka kröfur um birtingu fyrirtækja á áreiðanlegum og samanburðarhæfum upplýsingum um sjálfbærni. Gert er ráð fyrir að þetta regluverk verði í framhaldinu innleitt á Íslandi á næstu árum. Þetta samræmda regluverk er mikilvægur hluti af því að samþætta ófjárhagslega upplýsingagjöf fyrirtækja og kveður jafnframt á um að óháður aðili þurfi að staðfesta upplýsingar frá fyrirtækjum, sem mun auðvelda fjárfestum samanburð á fjárfestingar­kostum og auka traust á slíkum upplýsingum.