Fundur um MSc ritgerðir á sviði ábyrgra fjárfestinga

19/11/2021

IcelandSIF hélt morgunfund (fjarfund) í samstarfi Háskóla Íslands um kynningu á MSc ritgerðum þann 18. nóvember 2021. Fundurinn var vel sóttur og voru niðurstöður fjögurra MSc ritgerða á sviði ábyrgra fjárfestinga frá HÍ kynntar.

Erindi fluttu Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, María Ásdís Stefánsdóttir Berndsen MSc frá Háskóla Íslands, Ingi Poulsen MSc frá Háskóla Íslands febrúar 2022, Björg Jónsdóttir MSc frá Háskóla Íslands 2021 og Jóhann Viðar Halldórsson, MSc frá Háskóla Íslands febrúar 2022. Þröstur Olaf Sigurjónsson kynnti efni fundarins, sem var hvort og þá hvernig fyrirtæki bera samfélagslega ábyrgð, hvernig mæla á aðferðir fyrirtækja á sviði samfélagsábyrgðar og aðkoma fjárfesta skoðuð sérstaklega. Fundarstjórn var í höndum Þrastar Olaf Sigurjónssonar og Anna Þórdís Rafnsdóttir, stjórnarmeðlimur í IcelandSIF og verkefnastjóri sjálfbærni hjá Kviku opnaði fundinn og þakkaði fyrir ánægjulegt samstarf við Háskóla Íslands.

María Ásdís Stefánsdóttir Berndsen, MSc frá Háskóla Íslands 2021
Titill erindis hennar var Skipta UFS þættir máli við ákvarðanatöku íslenskra stofnanafjárfesta? Markmið með erindinu var að varpa ljósi á það hvaða aðferðum og mælikvörðum íslenskir stofnanafjárfestar beita við mat fjárfestingarkosta út frá UFS. Tekin voru viðtöl við stjórnarmenn og starfsmenn íslenskra stofnanafjárfesta, auk viðtala við stjórnarmann í dönskum lífeyrissjóði og danskan fræðimann á sviði ábyrgra fjárfestinga. Niðurstöðurnar sýna m.a. að íslenskir stofnanafjárfestar eru eftirbátar kollega sinna á hinum Norðurlöndunum, bæði varðandi mat fjárfestingakosta út frá UFS og eftirliti með fjárfestingum. Gegnsæi er lítið og haghafar, á borð við þá sem eiga fé í sjóðunum, hafa takmarkað aðgengi að upplýsingum um hvernig fénu er varið.

Ingi Poulsen, MSc frá Háskóla Íslands febrúar 2022
Titill erindis hans var Ófjárhagslegar upplýsingar – frá stafrófssúpu til samræmingar. Árið 2016 var ákvæði 66. gr. d. bætt við lög um ársreikninga nr. 3/2006 en með ákvæðinu var fyrirtækjum af ákveðinni gerð og stærð gert skylt að greina frá umfangsmiklum ófjárhagslegum upplýsingum í ársreikningum sínum. Upplýsingaskyldan er um margt óljós og er fyrirtækjum veitt umtalsvert svigrúm til þess að ákveða efnislegt inntak upplýsinganna.

Björg Jónsdóttir, MSc frá Háskóla Íslands 2021
Titill erindis hennar var Hindranir tengdar gögnum, við innleiðingu UFS þátta. Gerð var grein fyrir því hvernig rekja megi flæði UFS gagna. Rannsóknin fylgir flæði gagnanna frá tilurð þeirra til notkunar, með að markmiði að skilja hvað hindrar hraðari innleiðingu UFS þáttanna. Niðurstöður benda m.a. til þess að hagaðilar kalla eftir gæðaeftirliti með gagnaflæðinu, en eru hikandi vegna mikils tilkostnaðar við slíkt eftirlit.

Jóhann Viðar Halldórsson, MSc frá Háskóla Íslands febrúar 2022
Titill erindis hans var Siðferðilegt gerhæfi fyrirtækja. Rannsóknin snýr að því að varpa ljósi á hvort að þessi heimspekilegu viðhorf um siðferðilegt gerhæfi fyrirtækja (e. corporate moral agency) endurspeglist í viðhorfum stjórnenda íslenskra fyrirtækja. Niðurstöður sýna m.a. að stjórnendur hafa ólíkar skoðanir á þessum málum. Þeim ber þó öllum saman um að stjórnendur og hluthafar séu gæddir gerhæfi og hafi ívið meira en fyrirtækin sjálf, og jafnvel að fyrirtæki hafa ekki að geyma siðferðilegt gerhæfi.

Að loknum framsöguerindum var opnað fyrir spurningar og sköpuðust umræður og jákvæð viðbrögð við mjög áhugaverðum erindum.

Erindi Maríu Ásdísar

Erindi Inga

Erindi Bjargar

Erindi Jóhanns Viðars