Fjarfundur um ólíkar niðurstöður í UFS áhættumötum

17/10/2022

IcelandSIF hélt morgunfund (fjarfund) þann 13. október 2022 um UFS áhættumöt og hvernig álit greinanda og aðrar aðstæður geta haft áhrif á niðurstöðu mats. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum IcelandSIF og yfir 70 manns tengdust inn á fundinn.

Erindi flutti Dr. Florian Berg, prófessor við Massachusetts Institute of Technology (MIT). Fundarstjóri var Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo og stjórnarmeðlimur í IcelandSIF.

Florian fór í erindi sínu yfir ástæður þess að UFS áhættumöt geta skilað ólíkum niðurstöðum og hvernig álit greinanda á fyrirtæki og aðrar ytri aðstæður geta haft áhrif á niðurstöður mats. Dæmi eru einnig um að matsaðilar, t.d. Refinitiv, KLD, MSCI, S&P, Sustainalytics og Moody´s eru með marga ólíka flokka við mat á ákveðnum þáttum hjá fyrirtækjum, sem getur gert heildarmat snúið. Í slíkum aðstæðum er reynt að rýna aðferðafræði matsfyrirtækja og matsþættina og vega saman niðurstöður matsfyrirtækja til að leitast við að fá fram mat á tilteknum þáttum.

Florian fór einnig yfir hvernig ólíkar niðurstöður greinanda hafa áhrif á rannsóknir sem fjalla um tengsl UFS áhættu og verðmyndun. Hann sýndi einnig hvernig UFS áhættumöt greiningaraðila eru uppfærð aftur í tíma og tók m.a. dæmi frá Refinitiv. Aðferðarfræði UFS áhættumata hefur verið í þróun og hefur breyst á talsvert á milli ára sl. áratug sem gerir samanburð flóknari.

Florian Berg stundar rannsóknir við viðskiptafræðideild Massachusetts Institute of Technology (MIT). Við deildina leiðir Florian The aggregate confusion project, en rannsóknir hans snúast að miklu leyti um sjálfbærar fjárfestingar, UFS áhættumöt, það misræmi sem sést í UFS áhættumötum og hvernig það misræmi hefur áhrif á fjárfesta, fyrirtæki og vísindarannsóknir.
Florian lauk doktorsprófi í hagfræði frá Paris-Dauphine University. Hann starfaði í framhaldi sem greinandi hjá Amundi Asset Management og Alphadyne Asset Management. Hann hefur kennt við Paris-Dauphine University, Sciences-Po Paris, og MIT.

Hér má nálgast kynninguna frá fundinum:

Erindi Dr. Florian Berg

Nánari upplýsingar um Dr. Florian Berg og rannsóknir hans er að finna á heimasíðu hans.