Fjölbreytileiki í íslensku atvinnulífi - skiptir hann máli? - Samantekt

8/12/2022

IcelandSIF hélt morgunfund þann 7. desember 2022 undir yfirskriftinni: Fjölbreytileiki í íslensku atvinnulífi. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum IcelandSIF, alls sóttu ríflega 40 manns viðburðinn sem haldinn var í sal Íslandsbanka í Norðurturni í Kópavogi.

Fundarstjóri var Kristrún Tinna Gunnarsdóttir yfirmaður sjálfbærnimála og stefnumótunar hjá Íslandsbanka.

Fyrsta erindi flutti Gylfi Magnússon prófessor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Gylfi hefur í rannsóknum sínum einkum beint sjónum sínum að íslensku efnahagslífi, m.a. fjármálamarkaðinum. Yfirskrift erindis Gylfa var Vannýtt auðlind? Þjóðleg fjölbreytni í stjórn íslenskra hlutafélaga. Hann fór yfir á hvaða hátt innlendur vinnumarkaður er eftirsóttur út frá kaupmætti, launum og nægu framboði starfa auk þess sem hann ræddi um hvernig erlent vinnuafl skiptist milli atvinnugreina. Hlutfall erlends vinnuafls endurspeglast á hinn bóginn ekki í stjórnum félaga á sama hátt og á vinnumarkaði í heild. Bráðbirgðatölur frá árinu 2019 sýna að 4,4% allra hlutafélaga á Íslandi eru með erlendan einstakling í stjórn en hlutfall erlends vinnuafls hér á landi er um 20%. Hann benti á mikilvægi fjölbreytileikastjórnunar fyrir rekstur fyrirtækja og stofnanna, enda sýndu erlendar rannsóknir að fylgni væri á milli góðs árangurs og fjölbreyttra stjórna. Með því að huga ekki að fjölbreytileikanum væru fyrirtæki að fara á mis við tækifæri.

Erindi Gylfa

Næst flutti erindi Þóra Christiansen aðjunkt við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands en hún leggur jafnframt stund á doktorsnám í hnattrænum fræðum við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild við sama skóla. Yfirskrift erindis Þóru var Eigum við að lyfta þeirri svörtu? Staða kvenna af erlendum uppruna í íslensku atvinnulífi. Þóra hefur í sínum rannsóknum beint sjónum sínum að konum af erlendum uppruna á Íslandi. Hún kynnti niðurstöður á viðtalsrannsókn við konur sem eiga það sameiginlegt að vera háskólamenntaðar í milli- eða yfirstjórnendastöðu frá ólíkum löndum og hafa búið á Íslandi á bilinu 5 til 30 ár. Hún ræddi um hvernig íslenskt samfélag getur boðið fólk af erlendum uppruna velkomið með inngildingu, jákvæðu viðhorfi til fjölbreytileika, með því að óska eftir ólíkum sjónarhornum og með því að eiga samtal um fordóma og mismunun. Sömuleiðis sé mikilvægt að vera tilbúin til að ræða um og horfast í augu við eigin fordóma.

Erindi Þóru

Að lokum flutti erindi Gunnar Gunnarsson forstöðumaður Greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo. Gunnar er með doktorspróf í stærðfræði frá Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, M.A.-gráðu í stærðfræði frá sama skóla og B.Sc.-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Titillinn á erindi Gunnars var Kynjahlutföll í íslensku atvinnulífi: Hvað breytist? Gunnar fór yfir hvernig söguleg þróun hefur verið og hver staða kynjahlutfalla er á innlendum vinnumarkaði. Hlutfall kvenna í stjórnum hefur vaxið hægt og bítandi að undanförnu, úr 15% árið 2006 upp í 37% árið 2022. Gunnar benti á að aukningin væri m.a. tengd lögum um kynjakvóta sem tóku gildi árið 2013 en þar er m.a. kveðið á um að ef stjórnarmenn eru fleiri en þrír skuli tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Hann benti á að ein af ástæðum þess að hlutfallið er lægra en 40% er að stór hluti fyrirtækja er með þrjá stjórnarmeðlimi en í slíkum félögum geta setið tveir karlar í stjórn, á móti einni konu. Gunnar fjallaði einnig um kynjahlutfall meðal framkvæmdastjóra út frá stærð fyrirtækja. Könnun Gunnars leiddi í ljós að hlutfall kvenkyns stjórnenda lækkar með stærð fyrirtækja. Hlutfallið er 19% hjá minnstu fyrirtækjunum en 11% hjá stærstu. Einnig var hlutfallið skoðað út frá atvinnugreinum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja. Þá skoðaði Gunnar vanskilahlutfall félaga með tilliti til þess hvort kona eða karl var við stjórnvölin. Niðurstaða Gunnars var að vanskil eru umtalsvert lægri hjá félögum þar sem kona var við stjórnvölin. Hann taldi margt geta haft áhrif á þessa niðurstöður, s.s. en það þyrfti að rannsaka þær betur til að fullyrða eitthvað um ástæður.

Erindi Gunnars

Í umræðum að framsögum loknum sköpuðust líflegar umræður í sal þar sem fjölbreytileiki íslensk atvinnulífs var skoðaður frá mörgum hliðum. Það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi þróun í þessum málum!