Fjölsóttur fundur um sjálfbærar fjármálaafurðir

19/03/2021

IcelandSIF hélt morgunfund (fjarfund) um sjálfbærar fjármálaafurðir þann 18. mars 2021. Fundurinn var vel sóttur og um 100 manns skráðu sig á fundinn. Um er að ræða fimmta viðburð IcelandSIF veturinn 2020-2021 og hafa allir viðburðirnir verið fjarfundir, í ljósi aðstæðna.

Á síðustu þremur árum hefur orðið mikill vöxtur í sjálfbærnitengdum fjármálaafurðum, lánum og skuldabréfum, sem eru m.a. gefin út í þeim tilgangi að styðja við ákveðin umhverfis, sjálfbærni eða félagsleg markmið.

Erindi á fundinum fluttu Joop Hessels, yfirmaður Grænna, félagslegra og sjálfbærni skuldabréfa hjá ABN AMRO Bank NV og Signý Sif Sigurðardóttir, forstöðumaður Fjárstýringar hjá Landsvirkjun. Fundarstjóri var Margit Robertet formaður stjórnar IcelandSIF og forstöðumaður framtakssjóða hjá Kviku.

Joop Hessels fjallaði um sjálfbærar fjármálaafurðir og ólíka nálgun, bæði út frá sjónarhóli fjárfesta og útgefanda. Hann fór yfir mikinn vöxt í grænum, félagslegum og sjálfbærni skuldabréfum á síðustu árum. Á árunum 2016 – 2019 var vöxturinn mestur í grænum skuldabréfum, en árið 2020 og það sem af er ári 2021 hefur hlutfall félagslegra og sjálfbærni skuldabréfa aukist verulega. Hann fór yfir aukna sérhæfingu í útgáfu slíkra skuldabréfa, m.a. í tengslum við betur skilgreint regluverk og fór jafnframt yfir áskoranir framundan og kosti og galla bæði út frá sjónarhorni útgefenda og fjárfesta. Verðlagning grænna og félagslegra skuldabréfa hefur þróast á hagstæðan hátt fyrir útgefendur slíkra bréfa undanfarin misseri.

Signý Sif Sigurðardóttir fjallaði í sínu erindi um reynslu og stefnu Landsvirkjunar, en fyrirtækið stefnir að því að vera í forystu í sjálfbærri þróun og hefur sett sér skýra stefnu um framtíðarsýn: sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku. Landsvirkjun var fyrsti útgefandi grænna skuldabréfa á Íslandi árið 2018 og hefur síðan þá gefið út ólíkar tegundir af grænum skuldabréfum og hefur jafnframt tryggt sér sjálfbærnitengda lánalínu og gefið út skuldabréf tengt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í því skuldabréfi, sem gefið var út í mars 2020, eru vaxtakjör tengd markmiðum um kolefnisbindingu og hækka vaxtakjörin ef markmiðum er ekki náð. Mikil umframeftirspurn var eftir skuldabréfinu og var Landsvirkjun fyrsti evrópski útgefandi skuldabréfs sem tengt er heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á USPP markaði, sem er lokaður skuldabréfamarkaður í Bandaríkjunum. Landsvirkjun hefur í framhaldinu gefið út skuldabréf undir uppfærðum grænum fjármögnunarramma fyrirtækisins, sem vottaður er af Sustainalytics.

Að loknum framsöguerindum var opnað fyrir spurningar.

Hér má nálgast erindin af ráðstefnunni:

Kynning Joop Hessels

Kynning Signýjar Sifjar Sigurðardóttur