Fundur um kynningu á MSc ritgerðum

11/11/2020

IcelandSIF hélt morgunfund (fjarfund) í samstarfi Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands um kynningu á MSc ritgerðum. Fundurinn var vel sóttur og voru niðurstöður þriggja MSc ritgerða á sviði ábyrgra fjárfestinga frá nemendum við HÍ, HR og CBS í Kaupmannahöfn.

Frummælendur voru Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Hildur Magnúsdóttir, MSc frá Háskóla Íslands 2020, Hólmfríður Kristín Árnadóttir, MSc frá Háskólanum í Reykjavík 2020 og Sös Elisabeth Hansen, MSc frá Copenhagen Business School 2020. Þröstur Olaf Sigurjónsson fjallaði í inngangserindi um tilnefninganefndir, græn skuldabréf og áhrifafjárfestingar. Fundarstjórn var í höndum Þrastar Olafs og Margit Robertet, stjórnarformanns IcelandSIF og forstöðumanns hjá Kviku Eignastýringu.

Hildur Magnúsdóttir tók fyrst til máls. Titill erindis Hildar var Tilnefningarnefndir á Íslandi og fór hún yfir skiptar skoðanir á ágæti slíkra nefnda og þáttum er snúa að stofnun og skipulagi þeirra. Hildur fór yfir niðurstöður rannsóknar um hlutverk og störf nefndanna með sérstaka áherslu á sýn hluthafa, stjórnarmanna og nefndarmanna tilnefningarnefnda sjálfra. Fyrsta tilnefninganefndin var stofnuð árið 2014 og hafa þær ekki áður verið rannsakaðar á Íslandi.

Hólmfríður Kristín Árnadóttir tók næst við. Erindi Hólmfríðar bar titilinn Þarf fjármálaheimurinn ný gildi til að mæta framtíðinni? þar sem fjallað var um hvers vegna Norðurlöndin hafa gert betur en margir í útgáfu grænna skuldabréfa. Viðhorf til grænna fjárfestingakosta á íslenska markaðnum voru sérstaklega greind og rýnt í hvernig næstu ár geta litið út fyrir íslenska fjárfesta. Einnig kom Hólmfríður inn á hvernig umhverfismál og fjármálakerfið haldast í hendur.

Sös Elisabeth Hansen talaði síðust og var erindi hennar nefnt Do impact investing opportunities exist in public equity? Sös fjallaði um hvort fjárfestar í leit að samfélagslegum jákvæðum áhrifum fjárfestinga sinna geti litið almenningshlutafélög sterkum augum sem fjárfestingarkost. Erindi Sös var flutt á ensku og fór hún yfir hvernig áhrifafjárfestingar geta verið gerðar með ásetningi um að skapa jákvæð, mælanleg félagsleg og umhverfisleg áhrif ásamt fjárhaglegum ávinningi.

Að loknum framsöguerindum var opnað fyrir spurningar og sköpuðust umræður og jákvæð viðbrögð við mjög áhugaverðum erindum.

Hér má nálgast erindin af ráðstefnunni:

Kynning Hildar.pdf

Kynning Hólmfríðar.pdf

Kynning Sös.pdf