Stöðufundur: Hvernig gengur innleiðingarferlið? - Upptaka, samantekt og myndir

23/10/2024

Fundur IcelandSIF sem haldinn var þann 14. október fór yfir stöðu innleiðingar á regluverki ESB um sjálfbær fjármál. Þátttakendur pallborðsins ræddu það sem vel hefur gengið, hindranir í vegi þeirra, lausnir við áskorunum og tækifæri sem geta hlotist af regluverkinu. Litið var heildstætt yfir innleiðingarferlið, þvert yfir regluverkið og það skoðað út frá sjónarhorni helstu hagaðila, þ.e. banka, rekstrarfélaga, lífeyrissjóða og tryggingafélaga. Þátttakendur pallborðsins voru eftirfarandi:

  • Jón Ragnar Guðmundsson, sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum
  • Iðunn Hafsteinsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni hjá Stefni
  • Heiðrún Hödd Jónsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærnimálum hjá LSR
  • Óskar Baldvin Hauksson, framkvæmdastjóri fjármála og stafrænna lausna hjá TM

Arnar Sveinn Harðarson, formaður stjórnar IcelandSIF, stýrði umræðum pallborðsins. Hér að neðan má lesa samantekt á því helsta sem kom fram:

Hvernig gengur innleiðingarferlið?

Iðunn, sérfræðingur í sjálfbærni hjá Stefni, fór yfir hvernig innleiðing SFDR reglugerðarinnar hefur gengið. Heilt yfir taldi hún innleiðinguna hafa gengið vel. Hún fór sérstaklega yfir mikilvægi þess að skerpa á áherslum og skilgreiningum svo að regluverkið tali betur saman, m.a. um hvenær fjárfesting teljist vera sjálfbær fjárfesting og þá sérstaklega í samhengi við flokkunarreglugerð ESB (e. EU Taxonomy). Fyrirhugaðar breytingar á SFDR munu vonandi hjálpa til.

Samkvæmt Jóni Ragnari, sérfræðingi í sjálfbærni hjá Landsbankanum er hlutfall grænna eigna (e. GAR) hjá flestum fyrirtækjum hérlendis ennþá mjög lágt. Erlendir fjárfestar eru farnir að setja meiri pressu á íslenskar fjármálastofnanir að skila ítarlegri upplýsingum, t.d. um hærra GAR hlutfall, og bankarnir finna hvað þeir eru háðir atvinnulífinu um upplýsingar. Frekari árangur mun nást með samtali. Hingað til spila GAR upplýsingar ekki stóran þátt í ákvarðanatöku innan Landsbankans en það kemur til með að þróast áfram.

Að mati þátttakenda í pallborðsumræðunni er CSRD tilskipunin eðlilegt framhald af því sem fyrirtækin hafa verið að gera. Það þarf að huga að mörgum gagnapunktum og ákveða hvaða mælikvarða á að innleiða. Til að ná sem mestum árangri, þarf vinnan, t.d. eftir tvíátta mikilvægisgreininguna, að sjálfsögðu að skila sér inn í stefnumótun og verkferla til lengdar.

Samkvæmt Heiðrúnu Hödd eru lífeyrissjóðir eins og LSR byrjaðir að kortleggja vegferðina og verkferla sem taka mið af regluverkinu ásamt því kalla eftir sjálfbærniupplýsingum frá fyrirtækjum. Vilji er fyrir hendi að fjárfesta meira í grænum verkefnum og er upplýsingagjöf um sjálfbærni ekki aðeins til að hlíta reglugerðum.

Sjálfbærnivegferðin er langhlaup

Allir viðmælendurnir voru sammála um að sjálfbærnivegferðin væri langhlaup. Mikilvægt er að eiga samtalið bæði innan fyrirtækisins og við helstu hagaðila. Mikilvægt er að miðla fræðslu og halda reglulega viðburði til þess að auka skilning á regluverkinu. Með þeirri nálgun hefur t.d. Landsbankinn fengið betri viðbrögð frá starfsfólki alls staðar af í bankanum þar sem fólk er áhugasamara en áður og vil frekar taka þátt í samtalinu.

Varðandi stjórnskipan var augljóst hjá þátttakendum í palllborðsumræðunni að besti hagur sjálfbærnimála til lengri tíma er að sjálfbærni verði hluti af undirmeðvitund starfsfólks og sé hluti af kjarna starfseminnar, þvert yfir skipuritið.

Áskoranir og tækifæri

Rætt var um ýmsar áskoranir við innleiðingu sjálfbærnimála út frá nýjum kröfum. Regluverkið er tæknilega flókið en það eru líka áskoranir sem stjórnvöld bera ábyrgð á. Þrýsta þarf á yfirvöld og eiga samtal til að tryggja betur samkeppnishæfni. Hjá erlendum bönkum eru t.a.m. meginuppistaða grænna eigna íbúðalán sem taka mið af regluverki um orkunýtingu bygginga. Hins vegar er þetta hreinlega ekki hægt á Íslandi í dag þar sem Ísland er með undanþágu á reglugerð 2010/31/ESB um orkunýtingu bygginga.

Á hinn bóginn eru töluverð tækifæri til vöruþróunar eftir því sem markaðurinn þróast og aðlagast flokkunarreglugerðinni. Það kom fram frá Stefni að mikilvægt sé að vera með vöruframboð í tengslum við SFDR (fleiri 8. og 9. gr sjóðir), en þó þurfi að gæta þess að framboðið sé ekki of flókið fyrir viðskiptavini.

Vátryggingafélög sjá aukna tíðni storma og aukin tjón. Óskar sagði frá tækifærum í tengslum við að sinna forvörnum til að fækka tjónum. Í starfsemi TM hefur félagið tekið eftir því að það er bein fylgni á milli sjálfbærnivitundar viðskiptavina og líkum á að það verði tjón. Endurnýting á varahlutum kemur einnig til með að lækka kostnað, t.d í formi lægri gjalda til viðskiptavina.


Hér að neðan má finna upptöku og myndir af viðburðinum: