Fjölsóttur fræðslufundur á vegum háskólahóps IcelandSIF

9/10/2019

Fimmtudaginn 29. ágúst var haldinn fjölsóttur fræðslufundur á vegum IcelandSIF sem Háskólahópurinn skipulagði. Í upphafi fundar minntist Kristín Jóna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður IcelandSIF, Óla Freys Kristjánssonar, varaformanns stjórnar IcelandSIF, með stuttu ávarpi, en hann lést á líknardeild Landspítalans 25. ágúst.

Á dagskrá fræðslufundarins voru þrír einstaklingar sem kynntu meistararitgerðir sínar en áður en þau kynntu verkefni sín fór Þröstur Olaf Sigurjónsson dósent við Háskóla Íslands og Copenhagen Business School yfir þróun UFS (ESG) málaflokksins og hvert stefnir, ásamt stuttri kynningu á verkefnum sem verða unnin á meistaranámskeiði í samstarfi við aðildarfélög IcelandSIF og viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. Niðurstöður þeirra verkefna verða kynnt á ráðstefnu þann 7. október.

Að loknu erindi Þrastar kynnti Bjarni Magnússon ritgerð sína sem fjallar um það hvort íslenskir stofnanafjárfestar hafi markað sér hluthafastefnu og hvernig henni er beitt. Til að varpa ljósi á framkvæmd hluthafastefnanna voru samskipti stofnanafjárfesta og skráðra félaga könnuð með viðtölum ásamt því að tilkynningar í Kauphöll voru skoðaðar með tilliti til þess hvort stofnanafjárfestar lögðu fram breytingatillögur.

Því næst kynnti Harpa Rut Sigurjónsdóttir ritgerð sína sem fjallaði um græn skuldabréf: Rannsókn á umfangi grænu á sænska skuldabréfamarkaðnum. Í ritgerð sinni tók Harpa til rannsóknar hvort ólík ávöxtunarkrafa myndaðist á eftirmarkaði grænna skuldabréfa samanborið við þau hefðbundnu. Í ljósi ungs aldurs græna skuldabréfamarkaðsins ásamt skorti á settum reglum og vottun þriðja aðila eru rannsóknir þess efnis af skornum skammti. Í ljósi þessa þótti áhugavert að kanna með megindlegri rannsókn hvort ólík ávöxtunarkrafa var á grænum skuldabréfum samanborið við þau hefðbundnu yfir rannsóknar tímabilið. Til grundvallar voru valin græn skuldabréf skráð á sjálfbæra skuldabréfamarkaðnum í Svíþjóð. Voru samtals 56 samanburðarpör skoðuð, þar sem tvö sambærileg skuldabréf sama útgefanda voru valin til samanburðar, annað grænt en hitt hefðbundið.

Að lokum kynnti Karl Einarsson ritgerð sína sem bar nafnið Framtíðin er núna – græna skuldabréfaútgáfa sveitarfélaga. Markmiðið með rannsókninni var að kanna hvaða hagur felst í útgáfu grænna skuldabréfa fyrir sveitarfélög og einnig hvaða hindranir kunna að vera í veginum. Gerð var eigindleg rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við útgefendur grænna skuldabréfa og mögulega útgefendur úr hópi sveitarfélaga, eins var leitað til fjárfesta til að fá þeirra sýn á viðfangsefnið.

Að neðan má nálgast erindin, ásamt umfjöllun um samstarf IcelandSIF og Háskóla Íslands:

Hluthafastefnur íslenskra fagfjárfesta og framkvæmda þeirra

Framtíðin er núna

Rannsókn á umfangi grænu á sænska skuldabréfamarkaðnum

Samstarf IcelandSIF og Háskóla Íslands