Umfjöllun um blá skuldabréf

12/11/2021

IcelandSIF hélt morgunfund (fjarfund) um blá skuldabréf þann 12. nóvember 2021. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum IcelandSIF og um 120 manns tengdust inn á fundinn.

Blá skuldabréf hafa birst fjárfestum í auknum mæli undanfarin tvö ár og eru áhersluatriði þeirra nýting fjármuna í verkefni tengd verndun sjávar. Blá skuldabréf hafa komið inn á markaðinn sem angi af grænum skuldabréfum og má segja að umfang útgáfu þeirra sé álíka mikið og græn skuldabréf voru fyrir um áratug síðan. Brim hf. og NIB (Norræni fjárfestingarbankinn) eru dæmi um útgefendur sem gefið hafa út slík skuldabréf. NIB hefur í tvígang gefið út blá skuldabréf (2019 og 2020) og Brim gaf út blá skuldabréf fyrr á þessu ári og var sú útgáfa sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Erindi á fundinum fluttu Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brim og Jens Hellerup, Senior Director, Head of Funding and Investor Relations hjá NIB. Fundarstjóri var Reynir Smári Atlason, stjórnarmeðlimur í IcelandSIF og sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum.

Jens Hellerup kynnti NIB og fór yfir bláar skuldabréfaútgáfur NIB, sem gefnar voru út á árunum 2019 og 2020, Nordic-Baltic Blue Bond. NIB er norrænn fjárfestingarbanki sem stofnaður var árið 1975 og er í eigu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Verndun og hreinsun sjávar er sérstaklega mikilvæg eigendum NIB og grundvallast útgáfa blárra skuldabréfa bankans m.a. a því. Jens fór yfir fjárfestingarferli bankans og forsendur í grænum og bláum skuldabréfaramma bankans. Áherslur eru m.a. lagðar á hreinsun sjávar, verndun vatnsverndarsvæða og verndun vistkerfis sjávar. NIB gaf út grænt skuldabréf í fyrsta sinn árið 2011 og síðan þá hefur græn skuldabréfaútgáfa bankinn vaxið mikið og blá skuldabréf bættust við árið 2019. Jens fór jafnframt yfir samantekt um áhrif umhverfissjálfbærra fjárfestinga NIB, m.a. jákvæð áhrif á hreinsun og verndun sjávar. Að lokun fór Jens yfir einstök verkefni sem bankinn hefur fjármagnað með blárri skuldabréfaútgáfu.

Gréta María Grétarsdóttir kynnti áherslur Brims og bláa skuldabréfaútgáfu fyrirtækisins. Brim leggur áherslu á umhverfismál og meðferð náttúruauðlinda og telur mikilvægt að vinna í sátt við náttúruna og stunda ábyrgar og sjálfbærar veiðar. Stór hluti af auðlindum Íslands eru í sjó og því mikilvægt að finna lausnir til að vernda vistkerfi sjávar. Gréta fór yfir umhverfisgagnagrunn hjá Brimi, tilgangur hans er að geta metið áhrif starfsemi fyrirtækisins á umhverfið. Þarna hafa áskoranir m.a. verið þær að fá fullnægjandi gögn frá þriðja aðila. Greining á eldsneytisnotkun skipaflotans er einnig í þróun hjá Brimi, með það í huga að reyna að bæta nýtingu og þá er sorpflokkun er einnig mikilvægur þáttur í starfseminni, með það í huga að lágmarka það sorp sem þarf að fara til urðunar. Gréta fór einnig yfir sjálfbæran fjármögnunarramma Brims og helstu forsendur hans. Í dag er ramminn þrír grænir flokkar og þrír bláir flokkar og hver flokkur heldur utan um ákveðna tegund af verkefnum. Áherslur í bláum skuldabréfaramma eru einkum á hreinsun sjávar og verndun vistkerfis sjávar.

Hér má nálgast erindin af ráðstefnunni:

Kynning Jens Hellerup

Kynning Grétu Maríu Grétarsdóttur