Frá fundi um sjálfbæran fjármögnunarramma ríkisins

2/02/2022

IcelandSIF hélt morgunfund (fjarfund) um sjálfbæran fjármögnunarramma ríkisins þann 26. janúar 2022. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum IcelandSIF og um 90 manns tengdust inn á fundinn.

Sjálfbær fjármögnunarrammi íslenska ríkisins, sem kynntur var í september 2021, hlaut nýverið dökkgræna einkunn hjá CICERO Shades of Green, sem er alþjóðlega viðurkenndur og sjálfstæður vottunaraðili.

Erindi á fundinum fluttu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Esther Finnbogadóttir, sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Jasper Cox, greinandi á sviði fjárfestinga hjá PRI og Marika Brewitz, tengiliður við Bretland og Norðurlönd hjá PRI. Fundarstjóri var Kristbjörg M. Kristinsdóttir, stjórnarformaður IcelandSIF og fjármálastjóri Stefnis.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra ávarpaði fundinn. Hann fór yfir áherslur og stefnu stjórnvalda í sjálfbærni og samfélagsábyrgð, markmið stjórnvalda um losun og kolefnishlutleysi árið 2040 og fjallaði um mikilvægi þess að nýta sérstöðu Íslands og grænu orkuna. Hann sagði jafnframt frá sjálfbærum fjármögnunarramma ríkisins sem lagður var fram í september 2021. Í máli Bjarna kom fram að væntingar eru um að kjör íslenska ríkisins verði hægstæðari á skuldabréfaútgáfum undir sjálfbærum ramma.

Esther Finnbogadóttir fór yfir undirbúning og ferli við gerð sjálfbæra fjármögnunarrammans sem hófst árið 2020 og var sú vinna unnin í ráðuneytum og með ytri ráðgjöfum. Hún fór jafnframt yfir fjármögnunar­áætlun ríkisins til ársins 2026, en fjármögnunarþörf ríkisins er veruleg og jókst mikið eftir heimsfaraldur kórónuveiru. Því var mikilvægt að hraða vinnu við gerð fjármögnunarrammans, til að leitast við að ná hagstæðari fjármögunun fyrir ríkissjóð og jafnframt til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um sjálfbærni og alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum.

Esther fór yfir þau verkefni sem falla undir fjármögnunarrammann. Skuldabréf sem gefin eru út undir rammanum falla í þrjá flokka: græn verkefni, t.d. innviðir fyrir rafhjól/reiðhjól, orkuskipti í bílaflota og þungaflutningum og grænar byggingar, blá vekefni t.d. rafvæðing hafna, orkuskipti skipa og félagsleg verkefni, t.d. félagslegt húsnæði og atvinnusköpun.

Í máli Estherar kom fram að umfang verkefnisins er mikið og hefur tekið lengri tíma en áætlað var. Ekki liggur fyrir hvenær íslenska ríkið mun gefa út skuldabréf undir rammanum, eftir er að klára vinnu við eftirfylgni og upplýsingagjöf áður en ráðist verður í útgáfu. Mikilvægt er að upplýsingagjöf til fjárfesta um útgáfur undir rammanum verði fullnægjandi.

Marika Brewitz, hjá PRI (Principles of Responsible Investments), kynnti starfssemi PRI en þau eru ein stærstu samtök heims á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar og yfir 4000 fjárfestar hafa undirritað viðmiðunarreglur PRI um ábyrgar fjárfestingar.

Jasper Cox, frá PRI, fór yfir aðferðafræði fjárfesta við mat á ríkisverðbréfum og áherslur á UFS þætti tengdum ríkisverðbréfum sem ýta undir breytingar í átt að sjálfbærri uppbyggingu. Skuldabréfa-fjárfestingar eru um 40% af eignum í stýringu hjá þeim fjárfestum sem hafa undirritað viðmiðunar­reglur PRI um ábyrgar fjárfestingar. Jasper fór yfir mismunandi leiðir við innleiðingu á UFS þáttum í fjárfestingarferli.

Hér má nálgast erindin af ráðstefnunni, ásamt hlekk á sjálfbæran fjármögunarramma ríkissjóðs og áliti CICERO:

Erindi Estherar

Erindi Jaspers