Viltu taka þátt í vinnuhópum IcelandSIF?

25/08/2023

Stjórn IcelandSIF sem kjörin var á aðalfundi samtakanna í maí sl. leitar að einstaklingum sem starfa hjá aðildarfélögum eða aukaaðilum sem vilja taka þátt í starfi samtakanna. Starfræktir eru þrír hópar á vegum samtakanna sem munu starfa árið 2023-2024

Fræðslu- og upplýsingahópur

Tilgangur hópsins er að standa að faglegri og aðgengilegri fræðslu um ábyrgar fjárfestingar. Hópurinn skipuleggur viðburði og fræðslu m.a. um ábyrgar fjármálaafurðir og tekur virkan þátt í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla og samstarfsaðila. Formaður fræðsluhópsins er Reynir Smári Atlason hjá Creditinfo, sem jafnframt situr í stjórn IcelandSIF. Fræðsluhópurinn er skipaður að hámarki 7 einstaklingum.   

Lögfræðihópur

Tilgangur hópsins er að taka saman og miðla efni sem tengist núverandi og framtíðarlöggjöf á sviði sjálfbærni og ábyrgra fjárfestinga sem snerta félagsaðila með einum eða öðrum hætti. Hópurinn skipuleggur jafnframt viðburði á því sviði. Formaður lögræðihópsins er Arnar Sveinn Harðarson hjá Logos, sem jafnframt situr í stjórn IcelandSIF. Lögfræðihópurinn er skipaður að hámarki 7 einstaklingum.

Miðlunarhópur

Tilgangur hópsins er að miðla efni sem verður til á vettvangi samtakanna til félagsaðila með aðgengilegum hætti meðal annars í gegnum samfélagsmiðla. Hópurinn skipuleggur viðburði í samstarfi við stjórn og aðra vinnuhópa innan samtakanna. Meðlimum miðlunarhópsins er skipt á milli fræðslu- og upplýsingahópsins og í önnur verkefni samtakanna. Miðlunarhópurinn er skipaður að hámarki 3 einstaklingum.  

Það er markmið stjórnar IcelandSIF að með starfrækslu öflugra vinnuhópa að þekking og umræður á sviði ábyrgra fjárfestinga verði árangursrík, fagleg og upplýsandi fyrir félagsaðila.

Hafir þú áhuga á að taka þátt í starfinu hafðu samband hér. Það er kostur ef þú hefur einhverja reynslu á sviði sjálfbærni en ekki skilyrði. Skipað verður í vinnuhópa þann 4. september n.k. og þurfa umsóknir að berast fyrir það tímamark.