Fjölsóttur fundur um gildi umhverfisvottana fasteigna

28/10/2020

IcelandSIF hélt morgunfund (fjarfund) í samstarfi við Græna byggð, Green Building Council Iceland, um gildi umhverfisvottana bygginga fyrir fjárfesta. Fundurinn var mjög vel sóttur og yfir 100 manns tengdust inn á fundinn.

Frummælendur voru Þórhildur Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Grænni byggð, Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Regin, Sunna Hrönn Sigmarsdóttir, framkvæmdastjóri Knatthallar ehf. og Kvikmyndahallar ehf. og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri Reita. Þá flutti Gréta Þórsdóttir Björnsson, arkitekt hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar erindi um reynslu Reykjavíkurborgar af umhverfisvottun bygginga. Fundarstjóri var Margit Robertet, stjórnarformaður IcelandSIF og forstöðumaður hjá Kviku Eignastýringu.

Þórhildur Kristjánsdóttir fór í erindi sínu yfir mikilvægi umhverfisvottunarkerfa fyrir fasteignir. Gæðastjórnun og stöðlun eru lykilatriði í því ferli. Hún fór jafnframt yfir helstu vottunarkerfi fyrir fasteignir, m.a. Svaninn og Breeam en talsverð reynsla er af þeim kerfum á Íslandi. Hún fór jafnframt yfir mismun á milli vottunarkerfa en bæði kerfin og helstu viðmið í slíkum kerfum eru í stöðugri þróun.

Baldur Már Helgason kynnti græna vegferð Regins og stefnu Regins í sjálfbærni og umhverfismálum. Fasteignafélag er í góðri stöðu til að vera leiðandi í sjálfbærri þróun byggðar og Regin hefur þar markað skýra stefnu. Baldur fór jafnframt yfir græna fjármögnun Regins og aukinn áhuga fjárfesta á útgáfu grænna skuldabréfa.

Sunna Hrönn Sigmarsdóttir fór yfir reynslu af alþjóðlega vistvottunarkerfinu Breeam. Hún fór yfir Breeam In-Use matskerfið sem er í notkun hjá Regin og ávinning af notkun kerfisins á byggingar félagins. Markmið Regins er að votta 50% af eignasafni félagsins fyrir árið 2025.

Einar Þorsteinsson fór yfir græna vegferð Reita, skýra stefnu í sjálfbærni og umhverfismálum og reynslu félagsins af Svansvottun. Hann fór ítarlega yfir vottunarferlið sjálft, bæði í byggingu, viðhaldi og rekstri fasteigna og jafnframt í þróunarverkefnum. Einar fór yfir þann margvíslega ávinning sem fæst með umhverfisvottun, bæði fyrir umhverfið, fasteignanotendur og félagið sjálft og skapar vottunin að auki grundvöll fyrir græna fjármögnun félagsins.

Gréta Þórsdóttir Björnsson greindi frá reynslu Reykjavíkurborgar af umhverfisvottun bygginga. Reykjavíkurborg hefur samþykkt að nýjar byggingar borgarinnar skulu umhverfisvottaðar með alþjóðlega Breeam vottunarkerfinu. Nú eru þrjár byggingar hjá Reykjavíkurborg í vottunarferli eða hafa hlotið vottun. Gréta fór ítarlega yfir vottunarferlið og ramma Reykjavíkurborgar. Stærsta núverandi verkefni borgarinnar í Breeam vottunarferlinu eru byggingar í Úlfarsársdal.

Að loknum framsöguerindum var opnað fyrir spurningar. Fundurinn var mjög vel sóttur og er það til marks um áhuga félagsmanna IcelandSIF á umhverfisvottun bygginga, grænni fjármögnun og sjálfbærni í þróun byggða.

Hér má nálgast erindin af ráðstefnunni:

Kynning Þórhildar Kristjánsdóttur.pdf

Kynning Baldurs Más Helgasonar og Sunnu Hrannar Sigmarsdóttur.pdf

Kynning Einars Þorsteinssonar.pdf

Kynning Grétu Þórsdóttur Björnssonar.pdf