ESG bakslag: Samantekt, glærur, upptaka og myndir

16/05/2025

IcelandSIF stóð fyrir morgunfundi um ESG bakslag og áhrif þess á Íslandi þann 29. apríl í húsnæði KPMG, Borgartúni 27.

Á þessum viðburði var áhersla lögð á að rýna áhrif ESG bakslagsins á ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Markmiðið var að draga fram í dagsljósið hver raunveruleg staða sjálfbærni er á Íslandi og hvaða áhrif viðhorf og kröfur úti í heimi hafa hér heima.

Erindi fundarins voru eftirfarandi:

  • Sjálfbærni í hnattrænu samhengi -Hafdís Hanna Ægisdóttir, PhD, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands.
  • Hver eru áhrif ESG bakslagsins á flæði í fjárfestingasjóða? - Kenneth Lamont, Principal, Manager Research Department hjá Morningstar.
  • Að standast storminn: efnhagslegir þættir og framtíð ábyrgra fjárfestinga í breyttu landslagi -Vignir Þór Sverrisson, fjárfestingastjóri hjá Íslandssjóðum.
  • Hverjar eru afleiðingar bakslagsins fyrir fyrirtæki, fjárfesta og samfélagið í heild? -Hafþór Ægir Sigurjónsson, hluthafi hjá KPMG.

Fundarstjóri var Jóhanna Gunnþóra Guðmundsdóttir, meðlimur í fræðsluhópi IcelandSIF.

Hér að neðan má finna samantekt, glærur, og upptöku ásamt myndum af fundinum.

Samantekt

Sjálfbærni í hnattrænu samhengi - Hafdís Hanna Ægisdóttir, PhD, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands

Hafdís fór yfir stóru myndina og setti sjálfbærni í hnattrænt samhengi. Hún kom inn á mikilvægi Amazon regnskógarins, sem oft er notaður sem tákn til að kjarna sjálfbærniumræðuna, og snerti á því að Ísland getur haft áhrif á auðlindir Amazon skógarins í gegnum neysla Íslendinga. En á seinustu fimmtán árum hefur flatarmál Amazon skógarins rýrnað um því sem nemur tvöföldu flatarmáli Íslands.

Þrátt fyrir að neikvæðar umræður um íþyngjandi upplýsingagjöf bað Hafdís gesti um að muna hvers vegna það er mikilvægt að vinna stöðugt að sjálfbærri þróun, þar sem það er auðvelt að festast í excel skjölum og gleyma stóru myndinni.

Hafdís kom að lokum inn á sjálfbærniáhættu sem er nú þegar að raungerast. Á næstu tveimur árum er líklegt að aukning verði á útbreiðslu falsfrétta, öfga í veðurfari og átaka í heiminum, en beint samband er á milli loftslagsbreytinga og átaka m.a. vegna áhrifa loftslags og náttúru á viðskiptakerfi.

Ef horft er tíu ár fram í tímann munum við sjá fram á enn meiri öfga í veðurfari, tapi á líffræðilegum fjölbreytileika og hnignun náttúruauðlinda sem leiðir til neikvæðra áhrifa á hagkerfið. Til lengri tíma litið er stóra myndin sú að loftslagsbreytingar ógna fæðuöryggi og aðgengi að hreinu vatni, sem getur valdið spennu og átökum. Þetta getur leitt til flótta fólks vegna landrýrnunar. Umhverfismál eru því samfélagsmál og lagði Hafdís áherslu á nauðsyn þess að velja hugrakka leiðtoga til að mæta þessum áskorunum.

Hver eru áhrif ESG bakslagsins á flæði í fjárfestingasjóða? - Kenneth Lamont, Principal, Manager Research Department hjá Morningstar

Kenneth fór yfir áhrif ESG bakslagsins út frá greiningum Morningstar á flæði fjárfestingasjóða. Morningstar hefur með eigin aðferðafræði lagt mat á eignir í stýringu (AuM) sjóða sem skilgreindir eru sem grænir (e. self-identified). Flæði inn í slíka sjóði náði hámarki árið 2021, en síðan þá hefur flæði í sjóðunum dregist saman samhliða auknu flæði inn í hefðbundnari sjóði.

Áhrif ESG bakslagsins eru meiri og dramatískari í Bandaríkjunum en í Evrópu. Seinustu tíu ársfjórðunga hefur flæði í bandarískum grænum sjóðum verið neikvætt, en flæði inn í græna sjóði í Evrópu hefur verið nægilegt til að halda heildarflæði jákvæðu. Fyrsti ársfjórðungur 2025 var fyrsti ársfjórðungurinn þar sem heildarflæði eigna í grænum sjóðum var neikvætt.

Kenneth kom inn á það að þessi þróun endurspegli ákveðinn þroska (e. maturity) sem hefur náðst á markaðnum og að mögulega er markaðurinn einfaldlega að leiðrétta sig þar sem of mikið framboð var af grænum sjóðum.

Önnur skýring fyrir flæði úr grænum sjóðum er að ávöxtun þeirra, samanborið við ávöxtun meira hefðbundinna fjárfestingasjóða, hefur einfaldlega ekki verið nógu góð seinustu þrjú árin.

Kenneth telur að þróun fjárfesta í Evrópu gæti snúist minna um bakslag í sjálfbærnimálum og meira um gagnrýni á nálgun Evrópusambandsins í þessum málum, þar sem nálgunin hefur helst falið í sér lagasetningu og mikla upplýsingagjöf fyrirtækja. Hann telur fjárfesta ekki kalla eingöngu eftir víðtækari og samræmdri upplýsingagjöf, heldur lágmarks stöðlum til að sporna gegn grænþvotti.

Að standast storminn: efnahagslegir þættir og framtíð ábyrgra fjárfestinga í breyttu landslagi - Vignir Þór Sverrisson, fjárfestingastjóri hjá Íslandssjóðum

Vignir fór yfir bakslagið í sögulegu samhengi þar sem hann fór yfir sögu markaða fyrir hrun og sýndi hvernig evrópskir og bandarískir markaðir höfðu þróast með svipuðum hætti fram að 2008. Eftir hrun voru viðbrögð Bandaríkjanna gjörólík viðbrögðum Evrópusambandsins (ESB), á meðan Bandaríkin stigu á bensíngjöfina og komu fjármagni inn á markaði, setti ESB fjölda reglugerða á til að sporna gegn því að sagan myndi endurtaka sig sem Vignir telur að hefur hamlað efnahagsvexti í Evrópu.

Vignir rýndi í mögulegar ástæður fyrir bakslagi í sjálfbærnimálum og nefndi að stríð og átök setja spennu á allt kerfið. Stríðið í Úkraínu olli minna framboði af rafmagni í Evrópu sem leiddi til hærra raforkuverðs sem hafði síðan áhrif á verðbólgu. Laun í Evrópu fylgdu ekki hækkun verðlags sem hafði neikvæð áhrif á kaupmátt. Í kjölfarið bendir fólk á íþyngjandi regluverk, sem mætti segja að væri órökrétt en staðreynd samt sem áður. Vignir telur þetta hafa verið eitt af grunnorsökum bakslagsins.

Á svipuðu leyti var verðbólga einnig há í Bandaríkjunum og fólkið þar krafðist breytinga, sem leiddi til forsetakjörs Trump. Villandi fyrirsagnir og fréttaflutningur hefur verið áberandi, t.d. rangar og villandi upplýsingar um flótta fjármálafyrirtækja úr ESG samtökum, þegar raunin var að fyrirtækin völdu heldur að þróa og styðjast við eigin aðferðafræði.

Vignir lagði áherslu á að sjálfbærni sé ekki að fara neitt. Fjármálafyrirtæki sækjast eftir áreiðanlegri upplýsingagjöf til að kortleggja áhættulandslagið og greina tækifæri. Bakslagið gæti verið liður í því að pendúllinn sé að sveiflast til baka í leit að jafnvægi. Hann sagði að líklega munu fyrirtæki fara sínar leiðir til að finna jafnvægi og vinna sjálf að sjálfbærni vegna þess að þau átta sig best á því hvað skiptir raunverulega miklu máli.

Hverjar eru afleiðingar bakslagsins fyrir fyrirtæki, fjárfesta og samfélagið í heild? -Hafþór Ægir Sigurjónsson, hluthafi hjá KPMG

Hafþór fjallaði um ólíkar sviðsmyndir um þróun í loftlagsmálum og vænt áhrif loftslagsáhættu í alþjóðlegu samhengi, en mildun loftslagsbreytinga er háð alþjóðasamstarfi þar sem áhrif loftslags eru ekki bundin við landamæri.

  • Sviðsmynd óbreyttra reglugerða (e. current policies) er líkleg til að leiða til hárrar raunlægrar áhættu í framtíðinni, en raunlæg áhætta er sú áhætta sem stafar af raunlægum afleiðingum loftslagsbreytinga.
  • Sviðsmynd Parísarsáttmálans felur í sér samdrátt í losun sem ætti að hafa raungerst fyrr og leiðir sú sviðsmynd til lægri raunlægrar áhættu. Þessi sviðsmynd verður sífellt ólíklegri til að raungerast þar sem losun er enn að aukast.
  • Alvarlegasta sviðsmyndin er fragmented world og virðist sú sviðsmynd svipa til stöðunnar í dag. Ástæðan er sú að árangur í loftslagsmálum er háður alþjóðasamstarfi en í dag er mikil sundrung. Því er líklegt að við munum sjá raunlæga loftslagsáhættu raungerast fyrr.

Ráðast þyrfti því í stærri loftslagsaðgerðir í framtíðinni sem eykur umbreytingaráhættu til muna, en umbreytingaráhætta er sú áhætta sem stafar af nauðsynlegum aðgerðum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum og felur í sér aukna lagalega áhættu, áhættu vegna tæknibreytinga, markaðsbreytinga og aukna orðsporsáhættu. Sviðsmyndin fragmented world er því sú sviðsmynd sem er verst fyrir bæði loftslag og efnahagslegan stöðugleika.

Hafþór setti sviðsmyndina fragmented world síðan í samhengi við Ísland. Við myndum sjá fram á minna orkuöryggi og fæðuöryggi þar sem traust við nágrannaríki væri minna. Loftslagsbreytingar myndu hraða bráðnun jökla sem myndi auka vatnsafl til skemmri tíma, en svo myndi draga úr því í framtíðinni. Fiskistofnar við landið myndu færast norðar og loðnubrestur yrði algengari, sem hefði neikvæð áhrif á fæðuöryggi og atvinnuvegi landsins.

Ísland hefur verið hikandi þegar kemur að fjárfestingum í aðlögunaraðgerðum. Við munum sjá tjón vegna þess og mun kostnaður líklega enda á fyrirtækjum og sveitarfélögum þegar að áhættan raungerist. Loftslagsáhættan í þessari sviðsmynd leiðir til lægri arðsemi sem hefur neikvæð áhrif á fjárfesta og fjármálafyrirtæki. Bankar gætu séð fram á auknar vannefndir hjá þeim fyrirtækjum sem munu finna mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og aukinnar orðspors- og lagalegrar áhættu vegna fjármögnun brúnna verkefna.

Hafþór nefndi að fyrirtæki ættu að huga að sviðsmyndagreiningu og reyna að skilja áhættur út frá mismunandi sviðsmyndum og þannig greina hvernig áhrif gætu orðið á tekjur og eiginfjárkröfu ef gripið er til aðgerða snemma eða seint. Hann lagði einnig áherslu á að fyrirtæki hugi að virðissköpun og virðisvernd og að fyrirtæki ættu að nýta tækifærið núna til að vinna að verkefnum sem ýta við jákvæða þróun í loftslagsmálum.