IcelandSIF stendur fyrir morgunfundi um sjálfbærni í fiskeldi miðvikudaginn 12. nóvember næstkomandi frá kl. 9:00 til 10:15 í húsnæði Arion banka Borgartúni 19. Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar frá kl. 8:30.
Íslenskt fiskeldi stendur á tímamótum þar sem sjálfbærni, nýsköpun og samfélagsleg ábyrgð eru í forgrunni. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í greininni undanfarin ár og hefur umræðan um jákvæð áhrif hennar á störf á landsbyggðinni aukist samhliða umræðum um möguleg neikvæð umhverfisáhrif greinarinnar.
Á þessum viðburði rýnum við í hvernig hægt er að þróa fiskeldi með ábyrgum hætti þar sem náttúran, samfélagið og hagkerfið vinna saman. Viðburðurinn dregur saman fulltrúa atvinnulífsins, vísinda og fjármála til að ræða tækifæri Íslands til að verða fyrirmynd í lagareldi og mikilvægi samvinnu hagsmunaaðila til að tryggja trausta framtíð greinarinnar.
Á viðburðinum verður lögð áhersla á:
Frekari dagskrá verður birt síðar.
Fundurinn er opinn fyrir aðildarfélög IcelandSIF.
Athugið að fundurinn verður ekki tekinn upp.
Fyrirlesarar sem koma fram:
- Bjarni Kristófer Kristjánsson er prófessor og deildarstjóri við Háskólann á Hólum. Hann lauk BS prófi í líffræði frá Háskóla Íslands, meistara og doktorsprófi í dýrafræði frá Háskólanum í Guelph í Kanda. Bjarni er sérfræðingur í rannsóknum á líffræðilegri fjölbreytni og hefur unnið við fiskeldis og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum síðan 1998. Hann hefur komið að kennslu, rannsóknum og uppbyggingu náms á háskólastigi við háskólann.
- Silja Baldvinsdottir er gæðastjóri hjá Arnarlax, meðlimur framkvæmdastjórnar og hefur yfirumsjón með gæðamálum fyrirtækisins í gegnum alla virðiskeðjuna frá seiðaeldi til viðskiptavinar. Hún hefur umsjón með vottunum fyrirtækisins líkt og ASC og BRC, sér um sjálfbærnimál og hefur umsjón með útgáfu og gerð sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins sem er hluti af ársskýrslu Arnarlax. Hún er með MSc í alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Reykjavíkur, diplómanám í fiskeldisfræði frá Háskólanum á Hólum, gæðastjórnun fyrir fiskvinnslu frá Fisktækniskóla Íslands.
- Brynjolfur Eyjolfsson er sjóðstjóri hjá IS Haf fjárfestingum slhf og hefur starfað hjá Íslandssjóðum síðan í byrjun árs 2023. Hann er með umtalsverða reynslu af störfum við og fyrir íslenskan sjávarútveg sem stjórnandi, sérfræðingur og ráðgjafi. Áður var hann framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs Brim og ráðgjafi m.a. hjá PwC og ParX. Brynjólfur er með M.Sc. í alþjóðaviðskiptum frá Norwegian School of Economics, M.Sc. í sjávarútvegsfræði og B.Sc. í líffræði frá Háskóla Íslands.
Arion Gullfoss (3.hæð, aðalinngangur), Arion Banki, Borgartún 19, 105 Reykjavík